Sannkallaðir kyndilberar íþróttarinnar
Sjálfboðaliðar frá Skíðagöngudeild Völsungs hafa árum saman staðið í gríðarlegri uppbyggingu á skíðasvæði Norðurþings á Reykjaheiði við Reyðarárhnjúk en það er með glæsilegri og vinsælli útivistarsvæðum Húsavíkinga yfir veturinn.
Gönguskíðaíþróttin hefur fyrir vikið vaxið mjög í vinsældum undanfarin ár og er fjöldi fólks sem nýtir sporið sem hefur verið troðið reglulega yfir allan veturinn.
Snöruðu upp staurum í myrkrinu
Fyrr í þessum mánuði voru þrír kappar á vegum gönguskíðadeildarinnar uppi á heiði að bæta enn á aðstöðuna. Þetta voru þeir Róbert Ragnar Skarphéðinsson, Ásgeir Kristjánsson og Kári Páll Jónasson. Þeir voru staddir á heiðinni að kvöldlagi fyrir skemmstu þegar blaðamann bar að garði og voru að koma fyrir heljarinnar staurum eða möstrum umhverfis göngubrautina. Á staurana eru svo festir ljóskastarar til að flóðlýsa göngusvæðið.
„Við fengum þessa staura gefins en fengum styrk frá Norðurþingi til að kaupa ljós og strengi. Þetta er bara til þessa að lýsa upp brautina og svo vorum við líka að ýta fyrir brautarstæðin, það hjálpar snjónum að safnast fyrir undir brautina,“ segir Kári Páll en þeir félagarnir nutu fulltingis Þórðar Sigurðssonar, gröfumanns.
Kallar eftir frekari uppbygginu
Aðspurður segir Kári jafnframt að aðstaðan sé að verða þokkaleg til gönguskíðaiðkunnar á Reykjaheiði en bætir við að það sárvanti ennþá viðunandi aðstöðuhús. „Já það vantar náttúrlega almennilegt hús þarna. Það er eitt hús fyrir bæði togbrautina og okkur gönguskíðafólkið. Þá vantar líka hús fyrir tækin, eins og snjótroðarann sem stendur alltaf úti,“ segir hann.
Kári segir að þeir hafi komið fyrir fimm staurum og tíu ljóskösturum til að byrja með. „Við byrjuðum að gera stutta braut rétt norðan við lyftuskúrinn til að sjá hvernig þetta kemur út og svo bara bætum við við þetta smám saman. Þetta lengir tímann sem hægt er að ganga í brautinni og þá skiptir líka máli að búið sé að ýta svona fyrir braut og þá safnast snjórinn betur ofan í þetta,“ segir Kári og bætir við að hann sé þegar búinn að þjófstarta vertíðinni.
„Ég byrjaði aðeins í gær [sunnudaginn 13. október] og það var kominn talsverður snjór ofan í brautina, nóg fyrir okkur klikkuðustu,“ sagði Kári að lokum.