Samstarfssamningur við Norðlenska endurnýjaður

Goði verður áfram einkennismerki knattspyrnumóta barna og unglinga sem Þór á Akureyri heldur á hverjum vetri og munu mótin því áfram heita Goðamót Þórs. Samstarfssamningur þessa efnis á milli Norðlenska (Goði) og Knattspyrnudeildar Þórs var undirritaður í gær fyrir lokaleikina á síðasta Goðamótinu þennan veturinn. Það voru þeir Ingvar Már Gíslason, markaðsstjóri Norðlenska, og Eiður Pálmason, fulltrúi Goðamótsnefndar sem undirrituðu samninginn. Samningurinn er til þriggja ára.

Þetta þýðir að Goðamótin verða áfram á sínum stað í það minnsta næstu þrjú árin. Goðamótin hafa notið gríðarlegra vinsælda og hafa yfirleitt færri komist að en vildu. Fjögur mót eru nú haldin á hverjum vetri.

"Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem höldum þessi mót að hafa svona bakhjarla eins og Norðlenska, sem hefur staðið þétt við bakið á okkur alveg frá upphafi. Án samstarfs við fyrirtæki eins og Norðlenska og fjölmörg önnur sem standa í þessu með okkur væri ekki hægt að halda svona mót og gera það með eins glæsilegum hætti og við gerum," segir Jón Stefán Jónsson, mótsstjóri Goðamótanna.

"Við erum að fá þátttakendur alls staðar að af landinu og hafa yfirleitt færri komist að en vilja. Félögin sem koma eru mjög ánægð með allt skipulag og framkvæmd mótanna og við erum að sjá sama fólkið, sömu félögin, sömu krakkana aftur og aftur þannig að við hljótum að vera að gera eitthvað rétt. Þessi samstarfssamningur tryggir að við getum haldið áfram á sömu braut og haldið áfram að bæta okkur og gera mótin enn glæsilegri."

Knattspyrnudeild Þórs hefur haldið Goðamót á hverjum vetri frá 2003, allt frá því að Bolginn á Akureyri var opnaður, og er mótið sem nú var að ljúka það 29. í röðinni. Um eða yfir 1.600 krakkar hafa tekið þátt í mótunum þennan veturinn og að þjálfurum og fararstjórum meðtöldum eru um 2.000 manns sem telja má þátttakendur á mótunum í vetur. Auk þeirra fylgja liðunum fjölmargir foreldrar þannig að hverju móti fylgir mikið líf í bænum og fjölmargir sem sækja Akureyri heim í kringum þetta mótahald.

Nýjast