Sami fjöldi umsókna í HA og í fyrra

Alls bárust Háskólanum á Akureyri 660 umsóknir um nám nú í vor og rúmlega 600 greiddu innritunargjald og staðfestu umsóknir sínar. Þetta er nánast sami fjöldi umsókna og barst skólanum í fyrra. Að sögn Laufeyjar Petreu Magnúsdóttur forstöðumanns kennslusviðs HA voru flestar umsóknir um nám í viðskipta- og raunvísindadeild og kennaradeild eða um 200 umsóknir í hvora deild. Rúmlega 100 umsóknir bárust um nám í félagsvísinda- og lagadeild og tæplega 90 umsóknir bárust um nám í heilbrigðisdeild.  Í fyrra voru 170 umsóknir um nám í viðskipta- og raunvísindadeild þannig að nú eru umsóknir heldur fleiri. Nú er í fyrsta sinn boðið upp á meistaranám í viðskiptafræðum og eru um 30 nemendur skráðir til náms þar. Í kennaradeild er boðið uppá nám í kennslufræði til kennsluréttinda en sú námsleið var ekki í boði í fyrra. Umsóknum um nám í kennaradeild hefur því fjölgaði úr 157 árið 2006 í 200 umsóknir árið 2007.

,,Aðsókn að mörgum námsleiðum inna háskólans er í samræmi við væntingar. Námsframboð skólans er afar fjölbreytt og af þeim sökum væri æskilegast að fá sem flestar umsóknir um allar námsleiðir.  Það getur hins vegar reynst erfitt að skilgreina hvers er að vænta í þessum efnum, námsleiðir virðast höfða mis vel til umsjækjenda frá ári til árs, auk þess sem samkeppni háskólanna um nemendur verður sífellt meiri," sagði Laufey. 

Nýjast