Samherji veitti styrki til samfélagsverkefna að upphæð 75 milljónir króna

Útgerðarfyrirtækið Samherji hf. afhenti í kvöld styrki til samfélagsverkefna á Akureyri og í Dalvíkurbyggð samtals að upphæð 75 milljónir króna. Flestir styrkirnir eru gagngert veittir til að efla barna- og unglingastarf í íþrótta- og æskulýðsfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu. Þetta er í þriðja sinn á jafnmörgum árum sem Samherji veitir slíka styrki. Árið 2008 veitti fyrirtækið styrki að upphæð 50 milljónir króna, í fyrra að upphæð 60 milljóna króna, eða samtals 185 milljónir króna á þremur árum.  

Fram kom í máli Helgu Steinunnar Guðmundsdóttur við athöfn í Flugsafni Íslands í kvöld, að þátttaka barna og unglinga í íþróttum væri ómetanlegur þáttur í forvörnum og uppeldi. "Samherji vill efla þetta starf enn frekar með því að veita nokkrum íþrótta- og æskulýðsfélögum styrki. Fjármununum skal varið á næstu mánuðum til að lækka æfingagjöld barna og unglinga og/eða til að lækka kostnað við keppnisferðir þeirra veturinn 2010-2011 og styrkja starfið með öðrum hætti," sagði Helga Steinunn.

Einn einstaklingur fékk styrk frá Samherja að þessu sinni en það var skíðamaðurinn Björgvin Björgvinsson frá Dalvík, sem hefur verið fremsti skíðamaður landsins til fjölda ára. Þá kom fram í máli Helgu Steinunnar, að Samherji hefði ákveðið að stofna sjóð sem ætlað er að efla þjálfun og fræðslu lækna á hjartadeild Sjúkrahússins á Akureyri og gefur þeim aukin tækifæri til að kynna sér nýjungar á sviði rannsókna í hjarta- og æðasjúkdómum.

Nýjast