Sala á neyðarkalli björgunarsveitanna hefst í dag

Í dag, fimmtudaginn 4. nóvember, hefst fjáröflunarátakið Neyðarkall björgunarsveita. Sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar munu selja lítinn neyðarkall um land allt um helgina.  Átakinu verður formlega hleypt af stokkunum þegar Magnús Hallgrímsson og Guttormur Þórarinsson selja fyrsta neyðarkallinn til Dagfinns Stefánssonar en hann var flugmaður Geysis sem fórst á Bárðarbungu árið 1950.  

Um þessar mundir er þess minnst að 60 ár eru liðin frá þeim atburði. Geysisslysið markaði tímamót í sögu björgunarsveita á Íslandi, í kjölfar þess var fjöldi björgunarsveita stofnaður, m.a. Flugbjörgunarsveitin á Akureyri, en Magnús er einn af stofnendum hennar, og Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík. Báðir eru þeir Magnús og Guttormur meðlimir hennar. Faðir Guttorms var jafnframt í björgunarhópnum sem fyrstur komst að Geysi á Bárðarbungu.

Nýjast