Saga Gagnfræðaskóla Akureyrar komin út á bók

Í dag kom út bókin; Gagnfræðaskóli Akureyrar - saga skóla í sextíu og sjö ár. Ritnefnd var skipuð þeim Bernharð Haraldssyni, Baldvini Bjarnasyni og Magnúsi Aðalbjörnssyni.  Þá skrifaði Sverrir Pálsson einn kafla í bókinni. Gagnfræðaskóli Akureyrar á sér langa og litríka sögu. Skólinn hóf starfsemi sína árið 1930 en hann var lagður niður árið 1997 og það kom í hlut Baldvins Bjarnasonar að verða síðasti skólastjóri Gagnfræðaskóla Akureyrar.  

Bókin er um 260 blaðsíður, prýdd hundruðum ljósmynda og "er ómissandi þeim er vilja fræðast um sögu Akureyrar og þróun menntamála á Íslandi," eins og segir á bókarkápu. Þar segir ennfremur að bæjarbúar hafi ekki endilega fagnað stofnun skólans, á milli hans og Menntaskólans hafi verið einkennileg togstreita um nemendur, um tíma var hann í senn grunnskóli og framhaldsskóli en laut um síðir í lægra haldi fyrir hugmyndinni um tíu-bekkja-skóla.

Eftir að ákveðið var að ráðast í útgáfu bókarinnar skipuðu þeir Bernharð, Magnús og Baldvin sig sjálfa í ritnefnd, enda voru þeir sammála um að um engir væru betur til verksins fallnir. Samanlagður tími þeirra í Gagnfræðaskólanum, fyrst sem nemendur og síðan kennarar og stjórnendur er 87 ár. Bernharð tók að sér öflun heimilda og gerð texta og titlaði sig snemma formann ritnefndar. Baldvin og Magnús tóku að sér myndaölfun, myndatextagerð og gerð nafnalista og Baldvin annaðist tölfræðina. Ritnefndin á engum meira að þakka við gerð þessa ritverks en Sverri Pálssyni, eins og segir m.a. í formála. "Það var ekki einungis, að hann kenndi okkur öllum í þrjá vetur, heldur var hann samstarfsmaður okkar og skólastjóri um áratuga skeið, vinur okkar alla tíð. Hann var hvatamaður að þessu verki, ráðhollur og þegar fyrir kom, að ljósið varð að týru, blés hann í glæðurnar, loginn varð í senn heitur og sýnilegur. Hann lægði líka öldur, þegar þess var þörf. Hann léði okkur ritgerð sína um Þorstein M. Jónsson, sem hér er birt í heild, endurgjaldslaust," segir í formála bókarinnar. "Laun ritnefndar eu ekki af veraldlegum toga, verkið er tilraun til að gjalda góðri stofnun fósturlaunin," segir þar ennfremur. Þá rifja fjölmargir gamlir nemendur skólans upp árin sín í Gagganum.

Akureyrarbær og KEA studdu útgáfu bókarinnar en útgefandi er VÖLUSPÁ útgáfa. Bókin er prentuð í Ásprent á Akureyri.

Nýjast