SA Íslandsmeistari í íshokkí kvenna

SA er Íslandsmeistari í íshokkí kvenna eftir 4:1 sigur gegn Birninum á heimavelli í kvöld í þriðja leik liðanna. SA vann einvígið 3:0 og varði þar með titilinn frá því í fyrra. Annað árið í röð er því tvöfaldur sigur í íshokkíinu hjá Akureyringum en karlalið SA var sem kunnugt er Íslandsmeistari á dögunum. SA-stúlkur voru allan tímann með leikinn í hendi sér í kvöld og Bjarnarstúlkur ógnuðu lítið fyrir framan mark heimamanna.  

SA skoraði eina markið í fyrstu lotu og það kom eftir korters leik og það gerði Hrund Thorlacius. Heimamenn bættu bættu við öðru marki í annarri lotu og þar var að verki Sarah Smiley og staðan 2:0 fyrir SA fyrir þriðju og síðustu lotu.

Þegar rétt fjórar mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta skoraði Guðrún Arngrímsdóttir þriðja mark SA og staðan því ansi vænlega fyrir Akureyringa.

Hanna Rut Hemisdóttir náði að klóra í bakkann fyrir gestina áður en Birna Baldursdóttir bætti við fjórða marki SA 20 sekúndum fyrir leikslok. Norðanstúlkur fögnuðu því sanngjörnum sigri og Íslandsmeistaratitillinn heldur kyrru fyrir á Akureyri.

Nýjast