Rúmlega 450 þúsund farþegar með SVA á síðasta ári

Á síðasta ári var fjöldi farþega hjá Strætisvögnum Akureyrar rúmlega  450.000 talsins. Þetta er heldur lægri tala en árið 2009 þegar farþegafjöldinn var um 480.000 en árið 2008 voru farþegar um 440.000. Það var í ársbyrjun 2007 sem þjónustan varð farþegum að kostnaðarlausu og það ár ferðuðust um 330 þúsund manns með strætó. Árið 2006 voru farþegar SVA um 150.000 talsins.  

Stefán Baldursson forstöðumaður SVA segir að farþegum hafi heldur fækkað á mesta álagstímanum á síðasta ári en fjölgað frekar á öðrum tímum. Það stafi sennilega af því að vagninn var seinn á álagstímum eða að vagninn var heldur lítill sem olli óþægindum fyrir farþega. "Þá er nú orðið lítið um að grunnskólabörn séu að rúnta með vögnunum sem bar nokkuð á eftir að frítt varð í strætó og er það til bóta," segir Stefán. Hann segir að ekki sé gert ráð fyrir helgarakstri næsta sumar, þ.e. í júní, júlí og águst, frekar en sl. sumar og árið 2009.

Það hefur ekki reynst auðvelt fyrir strætisvagnabílstjóra að athafna sig við aksturinn síðustu daga, vegna erfiðra aðstæðna í bænum. Mikið hefur snjóað með tilheyrandi ófærð og til mynda var allur akstur SVA felldur niður á föstudag í síðustu viku vegna erfiðra skilyrða. "Við hefðum ekkert komist áfram þann dag og því ekki getað sinnt þeirri þjónustu sem okkur er ætlað. Fólk hefði getað þurft að bíða í hálftíma til klukkutíma eftir vagni og því var ákveðið að fella niður akstur þann daginn og auglýsa það sérstaklega. Það eru ein 10 ár síðan það gerist síðast að fella þurfti niður akstur heilan dag."

Stefán segir að þeir sem eru að vinna við snjómoksturinn hafi staðið sig vel miðað við aðstæður. Hins vegar sé enn víða mjög erfitt fyrir bíla að mætast vegna þrengsla og þá séu sumar götur mjög ósléttar.

Nýjast