Rokk og rabb með Naglbítum

Villi Naglbítur.
Villi Naglbítur.

Akureyrska hljómsveitin 200.000 Naglbítar heldur tónleika í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri í kvöld, föstudaginn langa. Þetta verður í annað sinn sem hljómsveitin kemur fram í Hofi. „Við erum að hugsa um að gera þetta að árlegum viðburði, það er svo gaman að spila í þessu húsi,“ segir Vilhelm Anton Jónsson, Villi Naglbítur, söngvari og forsprakki hljómsveitarinnar. „Þetta verða hálfgerðir afmælistónleikar en það eru 20 ár núna síðan við byrjuðum að spila í Gagganum á Akureyri.“

Nýtt lag

Hann upplýsir blaðamann að hugsanlega verði nýtt lag frumflutt á tónleikunum.

„Við ætluðum að taka létta æfingu fyrir tónleikana í síðustu viku en sömdum óvart gott lag í staðinn,“ segir Villi og hlær. „Það er svo gaman semja að þetta lag kom bara ósjálfrátt. Ef ég næ að búa til texta við lagið í tæka tíð,  þá munum við koma með splunkunýtt lag fyrir heimamenn. En þar sem ég er ekki stjórnmálamaður, lofa ég bara því sem ég get staðið við. Ég get hins vegar lofað góðri skemmtun. Okkur finnst alltaf gaman að koma norður að spila og við munum einnig segja skemmtilegar sögur úr æsku á milli laga. Þetta verður rokk og rabb.“

Vanda valið

Naglbítarnir komu síðast fram á Akureyri sl. sumar á afmælishátíð bæjarins en hljómsveitin hefur haft heldur hægt um sig undanfarin ár. „Við komum ekki oft fram en þegar við gerum það þá vöndum við valið hvar við spilum. Við erum allir frekar uppteknir í einhverju öðru og ákváðum því að halda færri en skemmtilegri tónleika. Við höfum meira gaman af þessu fyrir vikið og hverjir tónleikar skipta okkur meira máli.“

Nánar er rætt við Villa í prentútgáfu Vikudags.

throstur@vikudagur.is

Nýjast