Reynt að halda í horfinu þrátt fyrir minni tekjur

Fjárhagsáætlun Hörgársveitar fyrir árið 2011 var afgreidd á fundi sveitarstjórnar nú í vikunni. Þar er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur verði um 6% af skatttekjum, rúmlega 20 milljónir króna. Guðmundur Sigvaldason sveitarstjóri segir að í áætluninni sé reynt að halda í horfinu með rekstur og þjónustu sveitarfélagsins eftir því sem hægt er, þrátt fyrir minni tekjur en áður.  

Álagningarhlutföll skatta eru óbreytt frá fyrra ári og einnig flest þjónustugjöld. Leikskólagjöld og mötuneytisgjöld breytast ekki milli ára, fyrir utan það að tekinn er upp systkinaafsláttur í mötuneytisgjöldum. Sorpgjald hækkar töluvert í hluta sveitarfélagsins vegna samræmingar í kjölfar sameiningar sveitarfélaga á svæðinu. „Miðað við aðstæður er ég ánægður með þessa áætlun, veltufé frá rekstri á árinu verður vonandi viðunandi og gert er ráð fyrir að handbært fé aukist heldur" segir Guðmundur.  Til framkvæmda eru áætlaðar 6 milljónir króna.  Ekki er gert ráð fyrir nýjum lántökum en afborganir lána á árinu 2011 eru áætlaðar 15,7 milljónir króna. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að skatttekjur sveitarfélagsins nemi um 335 milljónum króna, gjöld án fjármagnsliða verða tæplega 306 milljónir króna og fjármagnsgjöld að frádegnurm fjármunatekjum verða um 8 milljónir.

Nýjast