Ólafur Jónsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri ætlar að óska eftir umræðu á næsta bæjarstjórfundi um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Hann segir nauðsynlegt að ræða stöðuna í ljósi þess að meirihluti borgarstjórnar vilji að Reykjavíkurflugvöllur verði fluttur úr Vatnsmýrinni.
Það hafa verið gerðar margar athuganir og verkfræðiúttektir sem allar eru á einn veg. Reykjavíkurflugvöllur á hvergi betur heima en í Vatnsmýrinni og samkvæmt skoðanakönnunum er meirihluti borgarbúa því sammála, segir Ólafur Jónsson.
Kosningamál
Engu að síður virðist mér nú sem að það eigi að gera þetta mál, þetta fjöregg íbúa landsbyggðarinnar, að kosningamáli næsta vor í höfuðborginni. Það eru skilaboð til okkar íbúa og sveitarstjórnarmanna á landsbyggðinni sem við verðum að taka mjög alvarlega. Við eigum að herða okkur í baráttunni fyrir þessu mikilvæga hagsmunamáli okkar.
karleskil@vikudagur.is