Þá kom fram á fundinum að fyrirhuguð opnunarhátíð í lok ágúst, þegar húsið verður tekið formlega í notkun, muni standa í viku. Þá verða ýmsar uppákomur í boði fyrir bæjarbúa, samhliða því að hátíðin verður nýtt til að kynna og markaðssetja menningarhúsið. Áætlaður kostnaður við þessa kynningarhátíð er um 10 milljónir króna.
Þá kom það fram í máli allra frambjóðenda að ekki er áhugi á að útvista rekstri Listasafnsins eftir að núverandi samningur rennur út. Skýrt kom þó fram í máli stjórnmálamannanna að almenn ánægja er með hvernig til hefur tekist á Listasafni Akureyrar og að Hannes Sigurðsson hafi unnið mjög gott starf fyrir safnið og menningarlífið í bænum. Hins vegar séu ákveðin tímamót framundan og á þeim krossgötum sé eðlilegt að bærinn taki reksturinn aftur til sín. Mikilla endurbóta er þörf á húsakynnum Listasafnsins í Gilinu, einkum á pípulögnum og öðrum innviðum, og má gera ráð fyrir að kostnaður við þær framkvæmdir geti þurft að vera um 300 milljónir til þess að hægt sé að taka efri hæð hússins undir safnið. Ekki er þó á ætlunin að ráðast í þær framkvæmdir strax, enda eru þær ekki á áætlun.