Regnbogabraut áfram göngugata
Húsavíkingar fengu sína eigin göngugötu þegar Regnbogabraut var fromlega opnuð 19. júlí sl. en ákvörðun var tekin um það í sveitarstjórn Norðurþings fyrir skemmstu að hluti Garðarsbrautar yrði við sérstök tilefni lokað fyrir bílaumferð til að skapa skemmtilega stemningu og auðga mannlífið.
Planið var að Regnbogabraut yrði lokuð fyrir bílaumferð fram yfir Mærudaga en framtakið hefur gefist vel og almenn ánægja verið um það enda bæði heimamenn og ferðafólk sem nýta götuna sem göngugötu og til myndatöku.
Því hefur verið ákveðið að nýta áfram samþykkt skipulags- og framkvæmdaráðs frá 192. fundi ráðsins 2. júlí sl. og hafa Garðarsbrautina lokaða á þessum parti á meðan ferðamannastraumurinn er hvað mestur eða til 12. ágúst.