Reglur vegna unglingadansleikja samþykktar

Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt reglur vegna unglingadansleikja en þær höfðu áður verið samþykktar í samfélags- og mannréttindaráði. Reglurnar eiga við um dansleiki fyrir ungmenni á aldrinum 14 - 17 ára, þar sem miðað er við fæðingarár en ekki fæðingardag.  

Það er bæjarlögmaður sem veitir sýslumanni umsögn vegna umsókna um leyfi til að standa fyrir unglingadansleikjum. Í samþykktinni er jafnframt vitnað í lögreglusammþykkt um útivistartíma barna og ungmenna. Önnur skilyrði sem sett eru fyrir unglingadansleikjum eru m.a. að þeir verði áfengis- og vímuefnalausir. Setja skal efri og neðri aldursmörk á dansleiki. Áfengisbarir verði lokaðir og breitt verði yfir bjórdælur og áfengisauglýsingar, þannig að þær sjáist ekki. Ströng dyravarsla verði og auglýst að framvísa verði skilríkjum við innganginn. Dyraverðir skulu hafa tilskilin réttindi.

Skemmtikraftar og dansleikjahaldarar mega ekki vera undir áhrifum áfengis- og vímuefna. Innihald skemmtana sem boðið er upp á skal hæfa aldri og þroska barnanna. Foreldrar fái í eftirlitsskyni frían aðgang að dansleikjum og dansleiki verður að auglýsa í bæjarmiðlum.

Nýjast