Rannsaka áhrif fjarvinnu á vegakerfið

Sæunn Gísladóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA), hlaut styrk frá Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar í lok febrúar síðastliðins fyrir verkefnið Áhrif fjarvinnu á vegakerfið. Verkefnið snýr að því að rannsaka hvort aukning hafi orðið á fjarvinnu í kjölfar COVID-19 faraldursins meðal íbúa jaðarsvæða höfuðborgarsvæðisins, til dæmis Selfoss, Hveragerðis, Akraness og Suðurnesja, sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðið, og meðal íbúa nærsveita Akureyrarbæjar sem sækja vinnu á Akureyri.

Umsóknir um tilraunafé 2023 voru 142 talsins en 78 verkefni voru styrkt. Sótt var um samtals 365,4 milljónir en sjóðurinn hafði 150 milljónir til ráðstöfunar. Samþykktar umsóknir frá háskólum voru 24 fyrir samtals 40,2 milljónir króna.

Fólksfjölgun í nærsveitum

Frá aldamótum hefur orðið gríðarleg fólksfjölgun á stórhöfuðborgarsvæðinu. Þannig fjölgaði íbúum á Suðurnesjum um 80,7% á árunum 2000–2022 og á sama tíma varð 90,4% fjölgun íbúa í Árborg 90,4% og 69,5% fjölgun í Hveragerðisbæ. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að stór hluti íbúa Akraness, Selfoss og Suðurnesja sækir vinnu til höfuðborgarsvæðisins.

Á Norðurlandi eystra hefur orðið 11% fólksfjölgun frá aldamótum og hefur fjölgun meðal annars átt sér stað í mörgum nærsveitum Akureyrar. Hlutfallslega hefur fjölgað mest í Svalbarðsstrandarhreppi, eða um 31,7%, en einnig hefur fjölgað um 21,4% í Hörgársveit og 16,1% í Eyjafjarðarsveit. Margir íbúar þessara sveita sækja vinnu utan búsetusvæðis síns samkvæmt niðurstöðum könnunar RHA fyrir SSNE frá haustinu 2022.

Bylting í fjarvinnu

Við COVID-19 faraldurinn varð bylting í fjarvinnu hér á landi þegar fjöldi fólks sem áður hafði aðeins stundað staðbundna vinnu og hafði ekki möguleika á fjarvinnu hóf að stunda fjarvinnu að heiman. Rannsóknir á Norðurlöndunum sýna að í kjölfar faraldursins hafði fólk mestan áhuga á ða stunda fjarvinnu að hluta til frekar en að öllu leyti. Jafnframt leiddi könnun BHM frá 2021 í ljós að 81% þátttakenda hafði áhuga á að stunda fjarvinnu að hluta til en einungis 3% að öllu leyti.

„Lítið er þó vitað um hver áhrif COVID-19 hafa verið á vinnusókn á Íslandi. Ég var því forvitin að vita hvort einhver breyting hefði orðið á ferðavenjum meðal fólks sem þarf að sækja vinnu um lengri leið utan heimabyggðar og myndi því sjá ávinning bæði í meiri frítíma og minni kostnaði við vinnusókn af aukinni fjarvinnu. Auk þess vildi ég kanna hver möguleg áhrif aukinnar fjarvinnu í kjölfar COVID-19 gætu verið á vegakerfið,“ segir Sæunn.

„Í rannsókninni verður svo einnig kannað viðhorf þátttakenda gagnvart ástandi vega á leið þeirra til vinnu og hvað þeir telja hafa mest áhrif á möguleika þeirra til að sækja vinnu um lengri leið, og spurt um almenningssamgöngur og rafbílaeign,“ útskýrir Sæunn nánar.

Átt þú erindi í rannsóknina?

Í kjölfar styrktarúthlutunar var þróuð spurningakönnun sem sett var í loftið um miðjan apríl. Sæunn segist þakklát sveitarfélögum, SSNE og BHM, sem hafa dreift könnuninni til að ná til eins breiðs hóps og möguleiki er á en einnig hefur hún nýtt sér íbúahópa á Facebook ásamt Facebooksíðu RHA og HA til að ná til þátttakenda.

Sæunn gerir ráð fyrir að loka fyrir gagnasöfnun um mánaðamótin og hvetur því áhugasama sem búa í nærsveitum Akureyrar en sækja vinnu til Akureyrar til að taka þátt með því að fylgja þessum hlekk: http://survey.sogolytics.com/r/fjarvinna, en könnunin er bæði á íslensku og ensku. Þátttakendum er boðið að skrá sig í gjafaleik þar sem 10.000 kr. gjafabréf frá Landsbankanum er í boði.


Athugasemdir

Nýjast