Rakel með þrennu og Þór/KA í annað sætið

Þór/KA lagði Aftureldingu að velli 4:0 er liðin áttust við á Þórsvelli í kvöld á Íslandsmótinu í Pepsi- deild kvenna í knattspyrnu. Rakel Hönnudóttir skoraði þrennu fyrir Þór/KA í leiknum og Mateja Zver eitt mark. Með sigrinum er Þór/KA komið með 19 stig í öðru sæti deildarinnar en Afturelding hefur 13 stig í sjötta sæti. Leikurinn í kvöld fór fjörlega af stað og Rakel Hönnudóttir fékk dauðafæri strax á fimmtu mínútu er hún fékk sendingu frá Örnu Sif Ásgrímsdóttur inn fyrir vörn gestanna en skot hennar var varið.

Aðeins mínútu síðar var Sigríður Þóra Birgisdóttir sloppin inn fyrir vörn Þórs/KA en skaut boltanum beint á Berglindi Magnúsdóttur í marki heimastúlkna. Arna Sif Ásgrímsdóttir var svo nálægt því að koma Þór/KA yfir á 11. mínútu er hún skaut boltanum í þverslána. Tveimur mínútum síðar fékk Vesna Smiljkovic dauðafæri og var kominn ein í gegnum vörn Aftureldingar en Elizabeth Bassett varði vel í marki gestanna. Eftir þungar sóknir Þórs/KA var ísinn brotinn á 20. mínútu þegar Rakel Hönnudóttir fékk frábæra sendingu frá Matjeu Zver inn fyrir vörn gestanna og skoraði með góðu skoti. Þremur mínútum síðar fengu heimastúlkur svo dæmda vítaspyrnu er brotið var á Vesnu Smiljkovic innan teigs. Bojana Besic fór á vítapunktinn en skaut boltanum framhjá markinu. Það var svo Rakel sem var aftur á ferðinni þegar Þór/KA komst í 2:0 á 26. mínútu, er hún skoraði sitt annað mark í leiknum eftir undirbúning frá Mateju Zver. Staðan 2:0 í hálfleik.

Þór/KA byrjaði seinni hálfleikinn af sama krafti og þann fyrri og Rakel fullkomnaði þrennuna þegar hún kom heimastúlkum í 3:0 eftir sjö mínútna leik í seinni hálfleik. Þór/KA hélt áfram að sækja og leikmenn Aftureldingar áttu fá svör og komust vart fram yfir miðju framan af seinni hálfleik. Á 65. mínútu kom svo mark leiksins þegar Mateja Zver smellti boltanum í þverslána og inn, þónokkrum metrum fyrir utan vítateig og kom Þór/KA í 4:0, sem urðu lokatölur leiksins. 

Nýjast