Rætt um að flytja sorp úr Eyjafirði í Refasveit

Lengi hefur verið stefnt að því að loka urðunarstaðnum á Glerárdal. Nú hillir loks undir lausn þess máls og endurheimt Glerárdals sem útivistarsvæðis fyrir Akureyringa og gesti bæjarins. Svæðið bíður uppá mikla möguleika til útivistar en urðunarstaður í minni dalsins hefur komið í veg fyrir nýtingu þess.  

Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri á Akureyri segir urðunarstaðinn á Glerárdal hafa starfsleyfi fram á mitt ár 2011og bæjaryfirvöld séu ekki tilbúin til að leita eftir framlengingu þess. Leit að nýjum urðunarstað í Eyjafirði hefur ekki borið árangur. Flokkun, fyrirtæki í eigu sveitarfélaganna við Eyjafjörð, á nú í viðræðum við byggðasamlagið Norðurá um að óflokkanlegur úrgangur héðan af svæðinu verði fluttur að Sölvabakka í Refasveit og urðaður þar. „Ef samningar nást á að vera hægt að loka urðunarsvæðinu á Glerárdal seinni hluta árs 2010. Ljóst er að kostnaður vegna urðunar mun aukast nokkuð frá því sem nú er ef af þessu samstarfi verður. Mun meiru þarf að kosta til vegna flutnings en á móti kemur að sveitarfélögin í Eyjafirði þurfa ekki að standa ein að uppbyggingu nýs urðunarstaðar sem þýðir  að gjald fyrir urðunina sjálfa verður lægra en ella hefði orðið," segir Hermann Jón og leggur áherslu á að með þessu fyrirkomulagi muni Akureyringar endurheimta gott og glæsilegt útivistarsvæði í Glerárdal sem einnig vegi þungt í þessu máli.

Hann segir að á  undanförnum árum hafi markvisst verið unnið að því að auka flokkun og endurvinnslu úrgangs á svæðinu og draga úr urðun. Þegar mest var voru urðuð um og yfir 20 þúsund tonn af úrgangi á Glerárdal en gert er ráð fyrir að í ár verði magnið milli 10 og 11 þúsund tonn og að þessi þróun muni halda áfram. Framundan eru breytingar á söfnun og meðhöndlun heimilissorps á Akureyri sem miða í þessa sömu átt, að tryggja að sem stærstur hluti úrgangs frá heimilum og fyrirtækjum sé endurnýttur eða endurunninn og að sem minnstu sé fargað.

Nú nýverið var Jarðgerðarstöð Moltu á Þveráreyrum tekin í notkun og þar með á að vera mögulegt að jarðgera allan lífrænan úrgang sem til fellur á svæðinu í stöðinni. Síðustu ár hefur lífrænn úrgangur frá fyrirtækjum verið jarðgerður við fremur frumstæðar aðstæður á Glerárdal en með tilkomu Moltu batna allar aðstæður til jarðgerðar til mikilla muna og afkastagetan eykst. „Lífrænn úrgangur er um 60% alls úrgangs frá fyrirtækjum og heimilum og stefnt er að því að stærstur hluti hans fari í jarðgerðina. Það stefnir því í að úrgangur til urðunar verði á næstu árum ekki nema þriðjungur þess sem hann var þegar mest var," segir bæjarstjóri.

Nýjast