„Ef ég væri bara í veitingarekstri væri þetta hundfúlt, en það hjálpar til að við fáum til okkar fólk í gistingu á móti," segir Sigurbjörn. Hann segir að vissulega hafi tilkoma menningarhússins tekið mikið af Hótel Kea, en það sé eðlilegt þegar um sé að ræða nýtt og glæsilegt hús. „Og við erum sáttir því tilkoma hússins skilar sér að einhverju leyti í gistingu hjá okkur og einnig aukinni veitingasölu. Þannig spilar þetta saman," segir Sigurbjörn.
Mikið hefur verið að gera á hótelinu að undanförnu, en það sem af er ári segir hann vera í slöku meðallagi. „Þá er ég auðvitað líka að horfa til þess að á sama tímabili í fyrra var mikið að gera, það var óvenju gott og í sjálfu sér ekki samanburðarhæft," segir Sigurbjörn.
Mars segir hann líta vel út og apríl líka, en sú hafi einnig verið raunin á sama tíma í fyrra, en eldgos í Eyjafjallajökli setti þá strik í reikninginn og það skiluðu sér ekki allir sem höfðu bókað gistingu. „Til lengri tíma litið held ég að gosið sé ágætis auglýsing og mun hafa góð áhrif á ferðaþjónustuna í ár og til lengri tíma litið," segir Sigurbjörn. Bókanir fyrir sumarið eru að hans sögn einnig með ágætum.