Prjónaverksmiðja Glófa á Akureyri stækkuð í kjölfar bruna

Ólafur Ívarsson framleiðslustjóri og Tómas Agnarsson við eina af mörgum vélum Glófa.
Ólafur Ívarsson framleiðslustjóri og Tómas Agnarsson við eina af mörgum vélum Glófa.

Í dag föstudag, tók ullavörufyrirtækið Glófi formlega í notkun prjónaverksmiðju og saumastofu sína á Akureyri í nýuppgerðu og talsvert stærra húsnæði en fyrirtækið hafði yfir að ráða áður. Í maí  árið 2010 varð bruni í eldra húsnæði verksmiðjunnar. Í kjölfarið stöðvaðist framleiðslan á Akureyri um tíma, var síðan í bráðabirgðahúsnæði en hefur nú verið komið fyrir í rösklega 850 fermetra framtíðarhúsnæði við Austursíðu.

Forsvarsmenn Glófa segja að með stærra húsnæði og endurnýjun vélbúnaðar stefni í aukna framleiðslu á Akureyri en þar er fyrst og fremst framleiðsla á sokkum, húfum, vettlingum, treflum og mokkavörum. Fyrirtækið framleiðir vörur undir merkinu Varma og er það stærsti framleiðandi á ullarvörum úr íslensku vélprjónabandi. Fyrirtækið var stofnað á Akureyri árið 1982 en hefur síðan vaxið mikið og er í dag með starfsemi á þremur stöðum á landinu; prjónaverksmiðjur og saumastofur á Akureyri, Hvolsvelli og í Kópavogi og markaðs- og söludeild og yfirstjórn í Kópavogi. Í heild eru starfsmenn um 45.

Logi A. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Glófa, segir að þrátt fyrir áfallið sem fyrirtækið varð fyrir með brunanum á Akureyri árið 2010 hafi tekist að koma framleiðslunni fljótlega í gang á nýjan leik í bráðabirgðaaðstöðu. Með framtíðaraðstöðunni sem fyrirtækið fagnar í dag sé stigið skref í átt að vexti á Akureyri. „Nýja verksmiðjuhúsnæðið við Austursíðu er hátt í 200 fermetrum stærra en við höfðum áður. Það skapar okkur ýmis sóknartækifæri og möguleika til endurnýjunar á vélbúnaði sem að hluta hefur þegar verið ráðist í og er í farvatninu. Við teljum okkur eiga talsverða möguleika ónýtta til vaxtar. Bæði í þeim vörum sem við höfum framleitt á Akureyri og einnig nýjum og tengdum vörum. Það má segja að framleiðslan á Akureyri hafi verið seld nokkurn veginn til helminga til Íslendinga og útflutnings en við höfum notið góðs af auknum straumi ferðamanna hingað til lands. Enn öflugri verksmiðja á Akureyri er því ánægjuefni fyrir okkur,“ segir Logi.

 

 

Nýjast