Óvíst er hvort hægt verður að halda þrettándagleði Þórs

Óvíst er hvort hægt verður að halda þrettándagleði Þórs þann 6. janúar nk., þar sem ekki hefur tekist að fá aðila til að standa straum af kostnaði. Akureyrarstofa leggur reyndar til fjármagn en það dugar ekki til. Sigfús Ólafur Helgason formaður Þórs segir að félagið hafi þurft að greiða með þrettándagleðinni tvö síðustu ár en það sé ekki hægt lengur.  

"Þetta hefur verið ein af stærri tekjulindum félagsins í gegnum tíðina en við tókum upp á því að hætta að selja inn og bjóða bæjarbúum á þessa skemmtun fyrir þremur árum og leita þess í stað eftir stuðningi fyrirtækja í bænum við framkvæmdina." Sigfús segir að þrettándagleðin hafi verið haldin með örfáum undantekningum frá árinu 1934 og það að fara á þrettándagleði Þórs hafi verið hluti af lokum jólahalds bæjarbúa. "En kannski er þrettándagleðin orðin barns síns tíma, það gengur alla vega erfiðlega að fá stuðning við framkvæmdina," sagði Sigfús. 

Hann segir að ef einhver fyrirtæki hafi áhuga á að koma að þessu verkefni með félaginu, geti það haft samband og þá sem allra fyrst.

Nýjast