Óvissa um áætlunarflug til og frá Húsavík

Mynd:Framsýn
Mynd:Framsýn

Áhyggjur eru uppi um framtíð áætlunarflugs til og frá Húsavík. Flugfélagið Ernir hefur flogið til Hafnar í Hornafirði, Bíldudals, Gjögurs og Húsavíkur en í sumar voru allar flugleiðirnar boðnar út nema leiðin til Húsavíkur.


 

Byggðarráð Norðurþings fjallaði um málið á fundi í október þar sem lýst var yfir miklum áhyggjum vegna óvissu um framtíðarskipan flugs til og frá Húsavík. Nú hefur komið í ljós að Norlandair frá Akureyri hefur fengið ríkisstyrktu flugleiðirnar Gjögur/Reykjavík og Bíldudal/Reykjavík en skrifað var undir samninga við Vegagerðina 2. nóvember sl. og hófst áætlunarflug Norlandair til þessara staða á mánudag. Flugfélagið Ernir heldur flugleiðinni til Hafnar.

 Deila um lögmæti útboðs

Ernir hefur haldið því fram að flugvélar Norlandair standist ekki kröfur sem settar voru fram í útboðinu og kærði niðurstöðu þess.

„Beechcraft King Air vél sú sem Norlandair hyggst aðallega nýta í flugið er skráð hjá Samgöngustofu sem 7 sæta en ekki 9 sæta, eins og fullyrt er í tilboði.  Ljóst er að þessi flugvél uppfyllir ekki skilyrði útboðsins um 600 kg. flutningsgetu fyrir frakt auk farþega og farangurs. Þessi skilyrði voru meðal annars sett vegna slæms ástands vega á Vestfjörðum og í Árneshreppi sem oft kallar á mikla flutninga,“ segir í yfirlýsingu frá Flugfélaginu Erni.

Þessum fullyrðingum hefur Vegagerðin og Norlandair hafnað. Í Yfirlýsingu frá Vegagerðinni segir að lög hafi ekki verið brotin þegar samið var við Norlandair um flug til Bíldudals og Gjögurs enda hafi verið beðið eftir afstöðu kærunefndar um útboðsmál áður en gengið var til samninga. Kærunefndin heimilaði samningsgerðina.

Vegagerðin fékk Ríkiskaup upphaflega til þess að annast útboðið. Mat Ríkiskaupa  var að tilboð Ernis ehf. uppfyllti ekki skilyrði útboðsins og væri því ógilt. Ríkiskaup taldi því rétt að semja við Norlandair ehf. um alla leggina þrjá.

Norlandair ehf. var með lægsta boð í flug á Bíldudal og til Gjögurs en Ernir ehf. til Hafnar. Vegagerðin tók við útboðinu og nýtti heimildir til þess að  heimila bjóðendum að leggja fram viðbótargögn og frekari skýringar.  Erni var ítrekað gefið slíkt tækifæri. Tilboð Ernis var að fengum viðbótarupplýsingum  metið gilt og fyrirtækinu boðinn samningur um annan af tveimur hlutum útboðsins.   Enda var fyrirtækið lægstbjóðandi í þeim hluta rétt eins og Norlandair ehf. var lægstbjóðandi í hinum hlutanum.

Hörður Guðmundsson, forstjóri Flugfélagsins Ernis hafnar þessum skýringum Vegagerðarinnar í samtali við Vikublaðið. „Það kom frá kærunefnd útboðsmála að Vegagerðin og Ríkiskaup hafi brotið innkaupalög með því að velja Norlandair. Samt sem áður er haldið áfram og Vegagerðin er einbeitt í brotavilja sínum,“ segir Hörður og bætir við að ráðherra samgöngumála hafi ekkert viljað gera í málinu og að pólitískur þrýstingur sé að norðan. „Okkar lögmenn telja að þetta sé skýlaust stjórnsýslubrot. Við höfum engan annan valkost en að höfða skaðabótamál og lögmenn okkar mæla með því. Við erum með vélakost og annað sem eru sniðin að þessum verkefnum, sem við sitjum nú uppi með án verkefna og ef við þurfum að segja upp mannskap þá erum við með alla á uppsagnafresti en höfum ekki tekjur til að greiða þeim launin,“ útskýrir Hörður en bætir við að slík mál geti tekið mjög langan tíma. „Þetta tekur kannski  3-5 ár og hvar verðum við þá?“

 Húsavíkurflugið í lausu lofti

Aðspurður um hvort áætlunarflug til og frá Húsavík gæti verið í hættu vegna þessa segir Hörður að erfitt sé að sjá endanleg áh

Kúti

rif á þessari stundu. „Við ætlum að reyna það sem við getum en þetta væri kannski ekki svona erfitt ef ekki væri fyrir covid. Það eru bara svo sáralitlar hreyfingar vegna þess. Þetta hefur allt áhrif en okkar markmið er að halda þessu flugi áfram. Við viljum þjóna Húsvíkingum og Þingeyingum öllum áfram eins og við höfum gert 

en það mun örugglega taka í hjá okkur því það er búið að taka af okkur tekjumöguleika. Við sjáum ekki fyllilega enn þá hvaða afleiðingar það hefur. Vonandi verður þetta í lagi,“ segir hann

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags segir í samtali við Vikublaðið að hann hafi verulegar áhyggjur af því að áætlunarflug til Húsavíkur sé í hættu. „Auðvitað hafa í gegnum tíðina verið ákveðin öfl sem hafa unnið gegn áætlunarflugi til Húsavíkur og vilja fá það allt í gegn um Akureyri. Þetta er leikflétta sem kemur okkur við og getur haft afleiðingar hér á svæðinu,“ segir Aðalsteinn. Framsýn sendi á þriðjudag frá sér yfirlýsingu þar sem verklag Vegagerðarinnar/Ríkiskaupa í sambandi við útboð á flugi til Gjögurs og Bíldudals er harðlega gagnrýnt. Framsýn hefur verið í samstarfi við Erni um niðurgreiðslu á flugfargjöldum til félagsfólks.

„Samkvæmt fréttum liggur fyrir að Vegagerðin hefur viðurkennt að Ríkiskaup hafi gert mistök við mat tilboða. Eins hefur komið fram hjá kærunefnd útboðsmála að Vegagerð/Ríkiskaup hafa brotið lög um opinber útboð við val á tilboði Norlandair, sbr. ákvörðun kærunefndarinnar frá 30. október sl. 

Vinnubrögð sem þessi kalla á sérstaka skoðun á meðferð málsins í stjórnkerfinu og að hlutaðeigandi aðilar verði dregnir til ábyrgðar. Menn eiga ekki að komast upp með svona stjórnsýslu í umboði stjórnvalda,“ segir í yfirlýsingunni en áður hafa Samtök atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum (SASV) sent frá sér svipaða yfirlýsingu.

Friðrik Adolfsson framkvæmdastjóri Norlandair segir ekkert hæft í fullyrðingum Flugfélagsins Ernis og Framsýnar um að Norlandair standist ekki kröfur útboðsins. „Okkar útboð er fullkomlega löglegt og vélakostur okkar uppfyllir öll skilyrði,“ segir hann í samtali við Vikublaðið.

Vísar fullyrðingum á bug

Friðrik Adolfsson

Friðrik segir að félagið hafi verið búið að tryggja sér 19 sæta vél með jafnþrýstibúnaði til að fljúga á Bíldudal og Gjögur þrjá mánuði yfir sumarið en þá hafi Covid sett strik í reikninginn. Við bíðum bara eftir að ástandið lagist þannig að við getum endurnýjað flugvélakostinn,“ segir hann. Jafnframt vísar hann fullyrðingum um að Beechcraft vél flugfélagsins sé skráð 7 sæta. „Þessi vél sem við erum að nota er besta 9 sæta vél sem hægt er að nota í þetta flug. Inni á vef Samgöngustofu stóð vissulega að hún væri 7 sæta en það voru mistök af þeirra hálfu sem búið er að lagfæra. Þegar vélin var keypt til landsins var hún með 7 VIP-sætum en við keyptum í hana 9 „commuter“ sæti sem vélin var byggð fyrir. Það er ekkert ólöglegt við þetta útboð, við vorum einfaldlega með lægra tilboð,“ segir Friðrik og bætir við að Norlandair hafi byrjað að fljúga þessa leið á mánudag og það hafi gengið vel.


Athugasemdir

Nýjast