Geirlaug segir að sá hópur sem njóti þjónustu Starfsendurhæfingar Norðurlands eigi á hættu að falla milli kerfa eins og hún orðaði það verði ekki framhald á starfseminni. Þeir sem fá þjónustu á vegum Starfsendurhæfingarinnar er m.a. fólk sem er að koma undir sig fótunum að nýju eftir veikindi eða slys og þeir sem hafa útskrifast úr meðferð eða af geðdeild og eru að búa sig undir að koma sér fyrir á ný á vinnumarkaði. Alls nýta nú 135 einstaklingar þjónustuna, en svæðið nær yfir allt Norðausturland. Fjölmargir hafa á undanförnum árum nýtt sér þessa þjónustu og segir Geirlaug árangurinn mjög góðan.
„Það yrði mjög bagalegt fyrir þessa einstaklinga ef þjónustan yrði lögð niður. Sá stuðningur sem fólkið hefur fengið hér hefur oftar en ekki leitt til þess að það hefur komist út á vinnumarkaðinn á ný. Við óttumst að margir verði varanlegir öryrkjar ef niðurstaðan verður sú að hætta þessari starfsemi," segir Geirlaug. Þá sé mikil hætta á að álag aukist á félagsþjónustuna, þeir sem þjónustuna nýta eigi hvergi neinn rétt þannig að framfærsluskyldan myndi færast yfir á sveitarfélagið. Alls starfa 6 starfsmenn hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands auk fjölda verktaka.