Óvissa í svínarækt sjaldan verið meiri

Svínaræktendur hafa ekki farið varhluta af þeirri umræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu að undanförnu um hátt matvælaverð. Meðal þeirra sem þar hafa lagt hönd á plóg er Finnur Árnason framkvæmdastjóri Haga. Ingvi Stefánsson, bóndi í Teigi í Eyjafjarðarsveit og formaður Svínaræktarfélags Íslands, segir í samtali við Vikudag að Finnur hafi beinlínis látið hafa eftir sér að kjúklinga- og svínarækt ætti að hætta í landinu þar sem þessar greinar skili ekki nægum virðisauka. „Það væri ef til vill fróðlegt í framhaldinu að sjá hvaða atvinnugreinum Finnur ætlar að gefa líf og hvaða greinar hann vill leggja af," segir Ingvi. Hann bendir á að bóndinn fái ekki nema lítinn hluta af því verði sem neytandinn greiðir fyrir vöruna í sinn hlut og hann tekur svo djúpt í árinni að segja að þótt bændur gæfu sinn hlut yrði svínakjötið dýrara hér en í sumum nágrannalandanna. „Manni blöskrar það að forstjóri Haga skuli ráðast á svínabændur með þeim hætti sem hann hefur gert. Ætli honum væri ekki nær að líta í eigin barm en fyrirtæki tengd Högum eru með um 60% smásöluverslunarinnar," segir Ingvi.

„Matvælaverð á Íslandi er hátt og bændur eru heilir í því að vinna að frekari hagræðingu sem skili sér í vasa neytenda. Tillögur ríkisstjórnarinnar til lækkunar á matvælaverði eru af hinu góða en bændur hafa áhyggjur af því að þær skili sér ekki að fullu til neytenda. Við vitum að verðlag er almennt hátt hérlendis og við getum horft á innfluttar vörur eins og fatnað og skó sem eru 63% hærri hér en að meðaltali innan ESB. Þannig er það alls ekki sjálfgefið að lækkanir á afurðaverði til bænda skili sér til neytenda."

Ingvi segir afkomu svínabænda í dag viðunandi. Verðið hafi hækkað en það skýrist ekki síst með því að á árunum 2002-2003 lækkaði verð á svínakjöti um 60%, bændur voru að gefa frá sér vinnu sína og höfðu ekki fyrir breytilegum kostnaði.

Talsmenn stóru kjötiðnaðarfyrirtækjanna á Norðurlandi hafa kvartað undan því að ekki hafi verið hægt að fá svínakjöt úr heimabyggð þegar mest hefur þurft á því að halda, en sækja hafi þurft kjötið í aðra landshluta. Við spurðum Ingva að því hvort bændur þyrðu ekki í stækkanir á búum sínum.

„Það er mikil og vaxandi eftirspurn eftir svínakjöti. Hins vegar held ég að í þeirri umræðu sem er um stöðu greinarinnar haldi menn að sér höndum. Það er verið að þrengja að mönnum og óvissan í greininni hefur sjaldan verið meiri en nú," sagði Ingvi.

Nýjast