Óvenjumikil þolinmæði

Ragnar Sverrisson með handlegginn skakka.
Ragnar Sverrisson með handlegginn skakka.

Ingólfur Sverrisson skrifar

Eyrarpúki

Í æsku minni var okkur kennt að þolinmæði væri dyggð. Æsingur væri sjaldnast til fagnaðar og farsælla að lofa tímanum að vinna með sér og sínum áhugamálum. Þá væri meiri von um árangur enda gildi einu hvort hann næst deginum fyrr eða síðar. En þrátt fyrir þessa ágætu kenningar er því ekki að leyna að oft þótti manni meira um vert að láta til skarar skríða en hika og vona svo að allt færi vel. Auðvitað var þessi afstaða beggja handa járn og kannski best að stíga varlega til jarðar í þolinmæði jafnt sem óþolinmæði.  Í eftirfarandi frásögn leyfi ég mér samt að segja frá því sem kalla má óvenjumikla þolinmæði.

Þannig háttaði til á æskuheimili mínu í Ránargötu 16 að mikill kjallari var undir austari hluta hússins; niður í hann lá voldugur tréstigi. Eitt sinn, þegar Ragnar bróðir var tveggja ára, var hann að brölta í stiganum, féll niður og handleggsbrotnaði. Mér er enn í minni þegar pabbi kom með drenginn upp í þvottahúsið með dinglandi hægri handlegginn og ljóst að allt var í sundur. Mamma kom hlaupandi frá eldamennskunni sem gleymdist við þessi ósköp.  Síðar sagði Raggi að fyrsta minning hans í lífinu hafi einmitt verið frá þessu augnabliki þegar hann sá í öllu umstanginu að það var að sjóða upp úr sætsúpupottinum í eldhúsinu. Þar með hófst sá þáttur í lífi hans að muna þetta og hitt og mynda úr því öllu það sem kallað hefur verið lífsreynsla. Og auðvitað tengist það sætsúpu í hans tilviki, nema hvað?

Svo var farið með drenginn á sjúkrahúsið en ekki tókst betur til en svo að handleggurinn greri ekki rétt og varð skakkur og skældur. Ekki fríkkaði stráksi við það! Það er þó mál manna að þessi skakki útlimur hafi síðar komið sér vel þegar hann gerðist handboltamaður með ÍBA.  Ástæðan var sú að andstæðingarnir áttu erfitt með að verjast manni sem var með handlegg sem var allt öðru vísi en slíkir útlimir á öðru fólki. Í varnarleiknum átti hann til að smeygja honum fyrir næsta mann og verjast þar sem enginn gat átt von á fyrirstöðu. Þegar hann stóð svo ógnvænlegur á línu andstæðingsins og bar sig til að skjóta fataðist markmanninum æði oft vörnin enda óljóst hvert bolti úr svo beygluðum handlegg færi þegar skot reið af.

Þess ber þó að geta að tilraun var gerð til að laga þennan skakka útlim drengsins fyrir 60 árum þegar hann var sendur suður á Landsspítala.  Þar skoðuðu færustu læknar  hann og sögðust myndu brjóta handlegginn og græða saman þannig að hann yrði eðlilegur á ný. Að vísu yrði nokkurra daga bið en það yrði hringt í hann fljótlega og aðgerðartími ákveðinn. Ár og áratugir liðu en aldrei var hringt og þar af leiðandi engin aðgerð – alltént ekki ennþá.  Þrátt fyrir þessar tafir lifir okkar maður nú í hárri elli í höfuðborg Norðurlands og bíður enn eftir skilaboðum frá Landsspítalanum!  Einhverjum þykir kannski að í þessu tilviki hafi verið heldur langt til seilst í þolinmæðinni.

Ingólfur Sverrisson


Athugasemdir

Nýjast