Öruggt hjá Þór/KA gegn Haukum á Þórsvelli

Haukar reyndust Þór/KA lítil fyrirstaða er liðin mættust á Þórsvelli í kvöld í Pepsi- deild kvenna í knattspyrnu. Þór/KA vann leikinn 5:1 og er komið með 25 stig í þriðja sæti deildarinnar. Haukar sitja hins vegar áfram í næstneðsta sætinu með þrjú stig. Rakel Hönnudóttir og Vesna Smiljkovic skoruðu báðar tvívegis fyrir Þór/KA í leiknum og Arna Sif Ásgrímsdóttir eitt mark. Mark Hauka skoraði Rebecca Ann Wise úr vítaspyrnu. Það tók Þór/KA rétt rúmar sjö mínútur að skora fyrsta mark leiksins.

Vesna Smiljkovic þeystist upp vinstri kantinn og sendi boltann fyrir markið, þar sem Rakel Hönnudóttir tók við honum og skallaði boltann snyrtilega í netið og kom Þór/KA í 1:0. Aðeins fjórum mínútum síðar skallaði Arna Sif Ásgrímsdóttir boltann í netið eftir hornspyrnu frá Mateju Zver og kom Þór/KA í 2:0. Áfram héldu heimastúlkur að bæta við mörkum. Vesna Smiljkovic nýtti sér mistök Sonný Láru Þráinsdóttur í marki Haukanna, er hún missti boltann úr fanginu í teignum og Vesna skaut boltanum í autt markið. Þór/KA skoraði svo fjórða mark leiksins aðeins tveimur mínútum síðar. Það kom eftir samspil Vesnu og Rakel Hönnudóttir, Rakel skallaði boltann í netið eftir sendingu frá Vesnu, líkt og í fyrsta markinu. Staðan orðin 4:0. 

Haukastúlkur náðu að minnka muninn eftir tæplega hálftíma leik er þær fengu dæmda vítaspyrnu. Rebecca Ann Wise fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi. Áður en dómarinn hafði flautað til hálfleiks hafði Vesna Smiljkovic bætt við fimmta marki Þórs/KA. Staðan í hálfleik því 5:1.

Þrátt fyrir yfirburða stöðu í hálfleik var Þór/KA ekkert að slaka í seinni hálfleik og hreinlega óðu í færum. Það er hreint með ólíkindum að þær hafi ekki náð að skora mark í seinni hálfleik, færin voru svo sannarlega fyrir hendi. Lokatölur, 5:1 sigur Þórs/KA.

Nýjast