Ólögmætt að gefa ekki út kjörbréf fyrir varamann
Nokkru fyrir bæjarstjórnarfund í byrjun apríl lá fyrir að hvorki fyrsti né annar maður á Bæjarlistanum gæti sótt fundinn þannig að kalla átti inn þriðja mann á listanum. Ekki hafði verið gefið út kjörbréf fyrir hann og fór Bæjarlistinn fram á að það yrði gert. Sigurður Guðmundsson oddviti Bæjarlistans segir að þau svör hafi fengist að of tímafrekt og dýrt væri að gefa út kjörbréf og var það ekki gert.
Í framhaldinu lagði Bæjarlistinn fram stjórnsýslukæru og laut hún að þremur atriðum er málið varðar, tregðu Akureyrarbæjar við að gefa út kjörbréf fyrir varamenn í bæjarstjórn, að þær ákvarðanir sem teknar voru á nefndum bæjarstjórnarfundi yrðu afturkallaðar þar sem enginn fulltrúi Bæjarlistans sat fundinn og að Akureyrarbær sætti ávítum vegna framgöngu sinnar í málinu.
Guðmundur Egill Erlendsson lögfræðingur sem sæti átti á Bæjarlistanum fyrir sveitarstjórnarkosningar í fyrra segir að listinn hafi fengið þær upplýsingar hjá bæjaryfirvöldum að það svaraði ekki kostnaði að gefa út kjörbréf fyrir viðkomandi varamann í bæjarstjórn, en það segir hann að sé á skjön við lög um kosningar til sveitarstjórna. Kjörbréf eigi að gefa út ef á þarf að halda. Niðurstaða innanríkisráðuneytisins hafi verið sú að um ólögmæta ákvörðun hafi verið að ræða hjá bænum. „Það er ákveðinn sigur fólginn í þeirri niðurstöðu, því ljóst er að Akureyrarbær hefur brotið á Bæjarlistanum með þeirri ákvörðun sinni," segir Guðmundur Egill.
Ráðuneytinu þótti ekki ástæða til að afturkalla þær ákvarðanir sem teknar voru á bæjarstjórnarfundinum þrátt fyrir fjarveru fulltrúa Bæjarlistans og byggði á því mati sínu að ekki hefði á fundinum verið fjallað um mikilvæg mál og eins hefði nægilegur fjöldi bæjarfulltrúa sótt fundinn. Guðmundur Egill segir Bæjarlistann ekki á sama máli og ráðuneytið varðandi mikilvægi þeirra mála sem um var fjallað, en m.a voru á honum teknar ákvarðanir er varða gjaldskrár.
Þá þótti ráðuneytinu ekki efni til þess að ávíta bæinn fyrir framgöngu sína í málinu, en að sögn Guðmundar hafði svipuð staða komið upp hjá Bæjarlistanum skömmu síðar og þá hafi bærinn brugðist við með því að gefa út kjörbréf. Bærinn hefði þannig að mati ráðuneytisins snúið frá villu síns vegar. „Við erum auðvitað ánægð með að hafa náð því fram að bærinn hefur breytt starfsháttum sínum í þessum efnum," segir Guðmundur.