Ólöf Björk Sigurðardóttir gerð að heiðursfélaga Skautafélags Akureyrar

Ólöf Björk Sigurðardóttir heiðursfélagi Skautafélags Akureyrar
Ólöf Björk Sigurðardóttir heiðursfélagi Skautafélags Akureyrar

Ólöf Björk Sigurðardóttir var útnefnd sem heiðursfélagi  Skautafélags Akureyrar fyrir störf sín fyrir félagið á aðalfundi þess sem fram fór í á dögunum. Ólöf Björk, sem lét af formennsku íshokkídeildar fyrr í vikunni, var formaður íshokkídeildar í 20 ár og sat í aðalstjórn Skautafélags Akureyrar í 15 ár.

Innkoma Ólafar í Skautafélagið var upphaflega sem foreldri árið 2001 en hún varð fljótt virk í starfi foreldrafélagsins. Ólöf kom síðar inn í stjórn íshokkídeildar en tók við formennskunni árið 2003 af Magnúsi Einari Finnssyni heitnum. Ólöf hefur sinnt starfi formanns af einstakri alúð með ómældri vinnu öll þessi ár og unnið af algjörum heilindum fyrir félagið. Hún hefur aldrei veigrað sér við að tækla neitt þeirra ótal verkefna sem hafa komið á hennar borð og haldið stöðugleika í starfinu.

Ólöfu verður seint þakkað að fullu fyrir það ómetanlega starf sem hún hefur unnið fyrir félagið sem er til mikillar fyrirmyndar innan íþróttahreyfingarinnar. Ólöfu var einmitt veitt gullmerki íþrótta og ólympíusambands Íslands síðasta vor. Ólöf er nú einnig heiðursfélagi Skautafélags Akureyrar – sú þrettánda í röðinni og einkar vel að því komin.

 

Athugasemdir

Nýjast