Oddur Helgi Halldórsson skrifar sérkennilega grein í Vikudag 23.maí síðastliðinn undir heitinu: ,,Fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðis á móti umhverfisátaki.
Í stuttu máli má segja að í grein Odds Helga er öllu snúið á haus.
Bókunin sem við undirritaðir lögðum fram í framkvæmdaráði var svohljóðandi:
Því miður sjáum við okkur ekki fært að samþykkja annars ágætar tillögur í Umhverfisátaki - 150 ára afmælisgjöf 2013.
Ástæðan er sú að við teljum að þau vinnubrögð meirihlutans um einhliða ákvörðun á ráðstöfun 20% fjárveitingarinnar sé óásættanleg í framkvæmdir hjá Siglingaklúbbnum Nökkva. Eðlilegt er að sú framkvæmd rúmist innan framkvæmdaáætlunar bæjarins.
Í framhaldi af bókun okkar brást meirihluti L-listans í framkvæmdaráði við með eftirfarandi bókun: Meirihluti framkvæmdaráðs telur að framkvæmdir við fegrun strandlengjunnar frá Höepfnersbryggju að Leiruvegi falli vel undir umhverfisátakið.
Ja, dýr yrði strandlengjan öll í bæjarlandi Akureyrarkaupstaðar ef þetta á að vera leiðarljósið næstu árin.
Í grein Odds Helga er öll heilbrigð umræða um þetta mál afvegaleidd með þeim hætti að undrum sætir. Reyndar er flestu snúið á haus í grein hins reynda sveitarstjórnarmanns.
Hann telur upp ýmis atriði og gerir okkur upp skoðanir og þar snýr hann hlutunum á haus gegn betri vitund.
Oddur gefur sér að við séum á móti og höfum greitt atkvæði gegn því að hverfisnefndir fái fjármagn til ráðstöfunar í verkefnum í sínum hverfum, s.s. endurbyggingu leiksvæða í hverfum bæjarins, að aðstaðan í Kjarnaskógi yrði bætt, að stígur sé lagður á milli Hörgárbrautar og Hjalteyrargötu, norðan Glerár, að gamla Glerárbrúin neðan rafstöðvar verði lagfærð, að fjölga setbekkjum og rusladöllum við göngustíga bæjarins.
Hins vegar gengur bæjarfulltrúinn Oddur Helgi fulllangt þegar hann talar um að við í minnihlutanum: ... höfum greitt atkvæði gegn áframhaldandi trjágróðursetningu í bæjar-landinu, í svokölluðum Græna trefli.
Því er okkur ljúft og skylt að greina frá því hér að Njáll Trausti kom með þá tillögu á fundi í bæjarráði síðastliðið sumar þegar kynntar voru hugmyndir um að fara í sérstakt umhverfisátak.
Í öllu þessu ferli hefur stuðningur L-listans og Odds Helga verið takmarkaður við þessa hugmynd.
Það hófst þó þannig að reiknað er með að á þessu ári verði settar 9 milljónir í að koma verkefninu af stað á nýjan leik en ekki hefur verið skipulega gróðursett í græna trefilinn um árabil.
Rétt er að geta þess lok þessarar greinar að ekki hefur verið gerð kostnaðaráætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda á svæði Nökkva. Hér er um að ræða opinbera framkvæmd þar sem farið er af stað án vitneskju um heildarkostnað verkefnisins.
Það er okkar mat að samstarfið við L-listann í framkvæmdaráði hafi að mestu leyti gengið vel á kjörtímabilinu og er það miður að Oddur Helgi skuli kjósa að afvegaleiða bæjarbúa á skoðunum minnihlutans í þessu máli.
Njáll Trausti Friðbertsson D-lista
Sigfús Karlsson B-lista