ÖLDRUNARHEIMILI AKUREYRAR HLJÓTA ALÞJÓÐLEGA VIÐURKENNINGU

Öldrunarheimili Akureyrar (ÖA) hafa öðru sinni hlotið alþjóðlega viðurkenningu sem fullgild Eden-heimili. Viðurkenningin nær til beggja heimilanna, þ.e. Hlíðar og Lögmannshlíðar.
Öldrunarheimili Akureyrar hlutu þessa alþjóðlegu viðurkenningu upphaflega í ársbyrjun 2014, fyrst íslenskra hjúkrunar- og öldrunarheimila hér á landi. Vottunin gildir í tvö ár í senn og þurfa heimilin að standast ítarlega úttekt á ýmsum þáttum starfseminnar til að halda gæðastimplinum. Öldrunarheimili Akureyrar eru enn sem komið er eina hjúkrunarheimilið hér á landi sem hlotið hefur þessa vottun.
Eden-stefnan er alþjóðleg hugmyndafræði sem dvalar- og hjúkrunarheimili víða um heim vinna eftir. Með Eden-hugmyndafræðinni er lögð áhersla á að öldrunarheimili séu heimili þeirra sem þar búa. Unnið er að því að gera umhverfi íbúanna heimilislegra og líflegra og lögð er áhersla á sjálfræði þeirra og einstaklingsmiðaða þjónustu. Rauði þráðurinn er að íbúarnir séu ekki alltaf í hlutverki þiggjandans heldur fái tækifæri til að gefa af sér.
Innleiðing Eden-hugmyndafræðinnar á Öldrunarheimilum Akureyrar hófst árið 2006 og frá þeim tíma hefur markvisst verið unnið í anda hennar. „Við leggjum mikið upp úr því að virkja heimilisfólkið sjálft og efla styrkleika þess. Í sameiningu gæðum við heimilið eins miklu lífi og unnt er, til dæmis með gæludýrum og miklu samstarfi við skóla, félagasamtök og einstaklinga,“ segir Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar. Hann segir að innleiðing nútímatækni á öldrunarheimilunum eigi líka stóran þátt í því hve vel hefur til tekist og auki enn á ánægju íbúa, aðstandenda og starfsfólks.
Rannveig Guðnadóttir, fulltrúi Eden Alternative á Íslandi, afhenti viðurkenningarnar í Hlíð í liðinni viku. Við sama tækifæri afhenti hún Jakobi Kárasyni alþjóðlega viðurkenningu Eden, „International Eden Family Member Award.“ Eiginkona Jakobs, Herborg Herbjörnsdóttir sem bjó í Hlíð, lést í mars sl. en sjálfur býr hann í Vættagili. Í rökstuðningi með viðurkenningunni segir m.a. að Jakob komi nær daglega í heimsókn, hafi gjarnan farið með konu sína og stundum fleiri heimilismenn á ýmsa viðburði utan heimilisins, bjóði heimilisfólki í mat heim til sín og sé sjálfboðaliði við ýmis tækifæri. Hann heilsi og tali við alla sem verða á vegi hans og styrki þannig tengsl íbúanna við samfélagið utan heimilisins.