Okkar hlutverk að halda uppi menntunarstigi á landsbyggðinni

Háskólasvæðið á Sólborg. Mynd: Hörður Geirsson.
Háskólasvæðið á Sólborg. Mynd: Hörður Geirsson.

„Þetta lítur ekki nægilega vel út, en sem betur fer hefur ársverkum hér ekki fækkað eins mikið og virðist samkvæmt þessum tölum,“ segir Stefán B. Stefánsson rektor Háskólans á Akureyri og segir að margar skýringar aðrar en uppsagnir séu því að störfum hefur fækkað við háskólann. Uppsögnum hafi verið haldið í algjöru lámarki.

Stefán nefnir að svonefnd rannsóknarmisseri hafi verið felld niður, en þegar kennarar tóku slík leyfi voru aðrir ráðnir í þeirra stað.  Þá hafi í sumum tilvikum ekki verið ráðið í þau störf sem  losnuðu.  Störfum hefði vissulega fækkað, en það væri hluti af hagræðingu, sem hefði skilað verulega góðum árangri.  Þannig hefði skólinn verið rekin réttu megin við núllið síðastliðin 6 ár og að auki sé nú búið að losa hann við skuldahalann. 

Það megi þakka strykri fjármálastjórn og eigi menn þar á bæ heiður skilinn fyrir vel unnin störf.Starfsmenn Háskólans á Akureyri tóku á sínum tíma á sig 5% launalækkun en samningur þar að lútandi rennur út um næstu áramót og segir Stefán óljóst um framhaldið á þessari stundu.

“Það er enginn vafi á því í mínum huga að niðurskurðurinn er meiri hjá okkur en t.d. í Háskóla Íslands,“ segir Stefán.  Hann sé stærðar sinnar vegna hagkvæmari rekstrareining en Háskólinn á Akureyri, „en okkur hefur þó tekist ótrúlega vel að reka þessa einingu á hagkvæman hátt,“ segir Stefán.  Þegar skólinn tók til starfa árið 1987 var einungis einn háskóli annar starfandi í landinu. Það gæti vissulega verið hagkvæmt að hafa bara einn háskóla starfandi í landinu nú, en með þeim sömu rökum segir Stefán að eins megi þá nefna að  hagkvæmast væri að allir ættu heima á einu og sama svæðinu. 

„Viljum við fara í það far?,“ spyr hann og bendir á að um 75% nemenda Háskólans á Akureyri komi af landsbyggðinni og sama hlutfall starfi þar að loknu námi.  „Við lítum á það sem okkar hlutverk að þjóna landsbyggðinni, að halda uppi menntunarstigi  þar,“ segir Stefán.Nú er útlit fyrir að framlög til skólans verði skorinn niður um 2% á næsta ári og segir hann að erfitt muni að mæta því, þó svo prósentutalan sé ekki há sé þegar búið að skera allan rekstur inn að beini og lítið eftir. 

„Við verðum auðvitað að finna leiðir til að auka tekjur og minnka útgjöld.  Það verður erfitt, en við erum bjartsýn á að okkur takist að komast í gegnum þann brimgarð sem við nú erum í og stefnum ótrauð upp á við,“ segir Stefán. 

Nýjast