Óhentug og hreinlega hættuleg bílastæði við Glerárskóla og Klappir

Það er oft þröng á þingi á bílastæðinu við Glerárskóla. Á morgnana koma tvær rútur að sækja elstu ne…
Það er oft þröng á þingi á bílastæðinu við Glerárskóla. Á morgnana koma tvær rútur að sækja elstu nemendur sem stunda nám í Rósenborg á meðan fjöldi iðnaðarmanna er að störfum í skólanum en þeir koma flestir á bílum. Það er því mikil umferð á svæðinu og börnin gangandi innan um rútur, vinnuvélar og bíla. Mynd:MÞÞ

„Þessi staða er hörmuleg. Ég trúi ekki öðru en að allir séu sammála um að það þurfi að auka öryggi barna sem koma að þessum skólum og bæta aðgengið,“ segir Anna Egilsdóttir móðir barna í Glerárskóla, en hún vakti athygli á hversu óhentug bílastæði eru við Glerárskóla, Klappir og Árholt í færslu í hóp íbúa í Holta- og Hlíðahverfi í vikunni.  Hún  segir þau hreinlega hættuleg líkt og þeir viti sem þar eru á ferð að morgni fyrir skólabyrjun viti.

Anna segist hafa vakið athygli á ástandinu frá því leikskólinn Klappir var opnaður haustið 2021, en sjálf hafi hún marg oft horft upp á að litlu mátti muni að ekki yrði árekstur bíla og eða að ekið væri á barn. Í vikunni horfði hún upp á eitt slíkt atvik sem varð tilefni þess að hún vakti máls á þessu í hópi íbúa hverfisins.

Hún segir mikið um að vera á bílastæðinu, framkvæmdir standi yfir við Glerárskóla og þangað komi iðnaðarmenn til starfa, tvær stórar rútur mæti á svæðið til að sækja nemendur sem þurfa að sækja nám annars staðar og þá er verið að skutla fjölda barna í skóla og leikskóla. „Það eru alltof fá bílastæði, sleppisvæðið er upptekið og börnum því hleypt út úr bílum á miðju bílastæði oft við skelfilegar aðstæður,“ segir Anna.

Munaði mjóu að ekið yrði á barn

Hún lýsir atviki sem varð í vikunni þegar bíl var lagt upp á gangstétt við girðingu við leiksvæðið Árholts en um þá gangstétt fer mikil umferð barna á leið í skólann. Ökumaður byrjaði að bakka og gerði það án þess að hika því vafalaust hefur hann ekki séð börnin sem þar voru á ferð og náðu að færa sig út í kant. Þarna munaði mjóu segir Anna og að því miður sé þessi staða uppi á hverjum degi.

Ástandið hafi versnað þegar rúturnar bættust við og eins fjöldi iðnaðarmanna sem komi á bílum til vinnu, við það hafi fjöldi þeirra sem eru á ferðinni aukist mjög. Þá bætist við vinnuvélar af ýmsu tagi sem geri svæðið enn hættulegra.

Hönnun sleppisvæðið út í hött

„Það hefði þurft að ráðist í breytingar á bílastæðinu síðasta sumar og þá er hönnun á sleppisvæði út í hött. Þau börn sem fara úr bílum á því þurfa að  ganga yfir bílastæðið á leið sinni í skólann. Ég er ekki ein um þessa skoðun, ég hef heyrt í fjölda fólks sem skilur ekki í  ábyrgðarleysi þeirra sem hönnuðu þetta svæði og að ekkert sé gert þrátt fyrir að oft sé búið að vekja athygli á þessu ástandi,“ segir Anna og leggur til að þeir sem þurfi að skutla börnum í Glerárskóla á morgnana nýti sér efra bílastæðið við Klappir, en þaðan er örugg leið niður stiga og tengigang að skólanum. Hvetur hún bæjaryfirvöld til að taka á málum hið fyrsta.

 


Athugasemdir

Nýjast