Bikarkeppni Sundsambands Íslands fór fram í Reykjanesbæ um helgina, þar sem keppt var í 1. og 2. deild í karla- og kvennaflokki. Sundfélagið Óðinn átti lið í bæði karla- og kvennaflokki sem kepptu í 1. deild, en árangur Óðins á mótinu var slakur. Liðið hafnaði í neðsta sæti í báðum flokkum eða í sjötta sæti og karlalið Óðins féll niður um deild.
Samkvæmt reglum bikarkeppninnar verður liðið sem hafnar í neðsta sæti 1. deildarinnar, að vera stigahærri en efsta lið 2. deildar til að halda sæti sínu í deildinni. Kvennalið Óðins var allan tímann öruggt með 1. deildar sæti með 12.113 stig, þar sem efstu lið 2. deildar voru talsvert stigalægri. Í karlaflokki var hins vegar Fjölnir með 9.907 stig í efsta sæti 2. deildar eða 153 stigum fyrir ofan Óðinn, sem hafði 9.754 stig í neðsta sæti 1. deildar.
Það þýðir að Óðinn fellur niður í 2. deild á kostnað Fjölnis sem tekur sæti í 1. deildinni í haust. Bikarmeistarar mótsins í ár voru SH í karlaflokki en Ægir í kvennaflokki.