„Þetta verða spennandi leikir og það er vonandi að maður fái sjensinn á morgun til sýna hvað í manni býr,” segir Oddur. Hann kemur til með að berjast um stöðuna sem annar vinstri hornmaður á móti Sturlu Ásgeirssyni í Val, en reikna má fastlega með því að Guðjón Valur Sigurðsson verði í HM hópnum sem fyrsti kostur sem vinstri hornamaður.
Um möguleikann á HM sæti segir Oddur: „Ég held að það séu bara helmingslíkur á því að ég komist á HM, ég og Sturla erum að berjast um laust sæti og það verður bara að koma í ljós hvernig fer. Ég vona allavega að ég fái tækifæri á morgun,” segir Oddur.
Sveinbjörn Pétursson var nokkuð jarðbundinn þegar hann var spurður út í möguleika sína til þess að komast í HM hóp Guðmundar Guðmundssonar landsliðsþjálfara. Sveinbjörn þarf að slá út annaðhvort Hreiðar Leví Guðmundsson eða Björgvin Pál Gústafsson til þess að komast til Svíþjóðar, sem verður að teljast ansi verðugt verkefni.
„Ég leyfir mér eiginlega lítið að hugsa um hvort ég komist í lokahópinn. Ég er aðallega að vonast eftir að komast í liðið fyrir seinni leikinn gegn Þýskalandi á morgun,” segir Sveinbjörn. Hann segir að bæði Björgvin og Hreiðar hafi tekið sér vel og að góð stemmning sé í hópnum.
„Ég þekki Hreiðar frá því að við bjuggum báðir á Akureyri og kannast aðeins við Björgvin. Þeir eru frábærir og láta manni líða vel á æfingum og ég er mjög sáttur með hvernig mér hefur gengið á æfingunum,” segir Sveinbjörn.