Nýtt upphaf óskar eftir frambjóðendum

„Að vilja breyta. Að fjölskylda mín, börn og vinir geti með góðu móti búið á þessu landi og í þessum…
„Að vilja breyta. Að fjölskylda mín, börn og vinir geti með góðu móti búið á þessu landi og í þessum bæ þegar þau verða fullorðin og haft það gott. Það er ávinningur minn,“ segir Ásgeir um Nýtt upphaf.

„Hljóðið er gott en stemmningin er enn þá róleg.  Það virðast fáir þora að stökkva strax um borð í þessa örk. Vilja gefa sér tíma til að hugsa þetta sem er af hinu góða.  Þetta er svipað og dýrin sem þurfa að þefa sig áfram og kynnast nýjum stöðum áður en þau ganga til verka,“ segir Ásgeir Ólafsson Lie stofnandi Nýs upphafs sem hyggst bjóða fram lista til næstu bæjarstjórnarkosninga. Nýtt upphaf hefur auglýst eftir 11 einstaklingum á listann, en hver og einn er þar á eigin forsendum en ekki flokksins.

Hann segir að þegar hafi nokkrir sótt um. „Hins vegar má segja frá því að einstaklingar sem nú þegar eru, og hafa verið starfandi í pólitík áður hafa haft samband. Það er nokkuð gott þykir mér.

Einnig hefur landsfjórðungur haft samband og langar að búa til NU framboð hjá sér í næstu kosningum,“ segir hann en fyrirkomulagið fyrir sveitarstjórnarkosningar á Akureyri er þannig að uppfylli maður skilyrði og þau gildi sem sett eru og óski eftir ákveðnu sæti fái menn það. Enn hefur enginn fest sér sæti en Ásgeir á von á að slíkt gæti gerst á næstu dögum og skorar á þá sem hafa áhuga að láta heyra í sér. Til stendur að birta listann 16. Maí næstkomandi, tveimur árum fyrir kosningar og þá hefst jafnframt kynning.

Kjósendur brenna fyrir að sjá breytingar

Ásgeir segir kjósendur brenna fyrir að sjá breytingar. „Það skynja ég. Þegar ég bauð mig fram í síðustu sveitarstjórnarkosningum fann ég að fólk vildi sjá, finna og fá breytingar. En þegar rótgróin framboð bjóða ekki upp á neitt nýtt, gerist ekki neitt nýtt,“ segir hann.  

Stefnuskrá sé ágætt verkfæri fyrir flokka sem kunna og vita hvað við viljum sjá breytast.   Svo kemur að því að frambjóðandinn standi loks undir nafni og loforðum sínum, þá tekur flokkurinn u-beygju frá stefnu sinni, stefnu sem frambjóðandinn lofaði að vinna fyrir kjósandann og hann er aftur kominn undir flokkinn sem einstaklingur.  „Ekkert frelsi. Þetta er því miður staðreyndin. Pólitík 101.  Það er ekkert mál að skrifa handrit að bíómynd í fullri lengd sem allir vilja sjá, en það er annað að klára framleiðsluna og sýna hana. Því þarf að fara allt aðrar leiðir til að takast að breyta einhverju sem er gróið svo fast, eins og flokkapólitíkin er.  Koma svo inn um allt aðrar dyr sem aldrei hafa verið opnaðar í þessu tilfelli. Það er krefjandi.“

Tæknilega segir Ásgeir lítið mál að bjóða sig fram sem einstaklingur „Það sem hefur komið mér á óvart er að þeir sem ég hélt að þekktu mest til í þessum málum, telja þetta ekki vera framkvæmanlegt. En svo útskýri ég það fyrir þeim, þá skilja þeir það.  En það segir kannski eilítið til um hvað við erum pikk föst í þessu gamla hjakki, að þeir sem þekkja best til, skilja ekki að þetta er hægt. Sem það hæglega er,“ segir hann .

Þarf öfluga einstaklinga sem hafa vilja og þor

„Ávinningurinn minn er ekki fjárhagslegur,“ segir Ásgeir um þá ákvörðun sína að búa til flokk þar sem ekki er starfandi formaður.  Hann sé allur á hugsjónina.  „Að vilja breyta. Að fjölskylda mín, börn og vinir geti með góðu móti búið á þessu landi og í þessum bæ þegar þau verða fullorðin og haft það gott.  Það er ávinningur minn. En þetta mun taka tíma eins og allt.  Að ná að kynna þetta fyrir kjósendum svo þeir skilji hvað þetta er og að þetta er mögulegt. Því þarf ég að fá öfluga einstaklinga sem hafa vilja, þor og dug að gera eitthvað sem aldrei hefur verið framkvæmt áður. Skilja ástæðuna og ávinninginn sem skapast.“ 

https://www.facebook.com/nyttupphaf

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast