Nýtt félag tekur yfir starfsemi Norðurskeljar í Hrísey

Að undanförnu hefur verið unnið að því að safna hlutafé í nýtt skelræktarfélag og endurreisa skelrækt við Hrísey, eftir að Norðurskel varð gjaldþrota á dögunum. Á fundi um atvinnumál í Hrísey í dag, upplýsti Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar Akureyrar, að nú stefni í að starfsemin fari í gang fljótlega, jafnvel í næstu viku.  

Geir sagði að aðilar sem m.a áttu veð í eignum Norðurskeljar, hafi tekið sig saman fyrir nokkrum vikum, með það að markmiði að safna 20 milljónum króna í hlutafé í nýju félagi. Það hafi gengið vel og m.a. hafi bæjarráð Akureyrar samþykkt að leggja 2 milljónir króna í hlutafé á fundi sínum sl. fimmtudag. Þann sama dag voru opnuð tilboð í eignir þrotabús Norðuskeljar og átti þetta nýja félag hæsta tilboðið. Geir sagði að nú væri í gangi vinna með skiptastjóra þrotabúsins um að koma starfseminni í gang á ný. Sl. föstudag bárust svo þær fréttir að Nýsköpunarsjóður hefði samþykkt að leggja 30 milljónir króna inn í nýja félagið, sem hefði því 50 milljónir króna í hlutafé.

Ráðinn verður framkvæmdastjóri til að stýra félaginu og þá mun Víðir Björnsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Norðurskeljar starfa hjá nýja fyrirtækinu. Til viðbótar er stefnt að því að ráða 3-4 starfsmenn mjög fljótlega og þá er til skoðunar að tengja þetta atvinnuátaksverkefni og fjölga þannig starfsfólki enn frekar.

Eins og fram hefur komið var félagið Norðurskel ehf. í Hrísey úrskurðað gjaldþrota í síðasta mánuði. Félagið hafði verið í greiðslustöðvun frá lokum nóvember, þar sem reynt var að endurskipulegga fjármál félagsins og fá nýja fjárfesta að rekstrinum. Norðurskel ehf. var stofnað árið 2000 og var leiðandi aðili í þróun kræklingaræktar á Íslandi. Alls störfuðu fimm manns hjá félaginu.

Nýjast