Nýta skal kosti útboða við fram- kvæmdir, vöru- og þjónustukaup

Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Akureyrarbæjar fyrir árið 2011 á fundi bæjarstjórnar í gær, voru samþykktar þrjár bókanir með 11 samhljóða atkvæðum. Þær snúa að starfsáætlunum, kaupum á vörum og þjónustu og áherslum við framkvæmd fjárhagsáætlunarinnar. Eftirfarandi bókanir voru samþykktar:  

Starfsáætlanir

Bæjarstjórn felur nefndum og ráðum að yfirfara starfsáætlanir í samráði við stjórnendur og gera á þeim þær breytingar sem nauðsynlegar eru með tilliti til fjárhagsáætlunar Akureyrarkaupstaðar. Stefnt skal að því að ljúka yfirferðinni fyrir lok janúar 2011. Bæjarráð og bæjarstjórn munu þá taka áætlanirnar til umræðu og afgreiðslu.

Kaup á vörum og þjónustu

Nýta skal kosti almennra útboða við framkvæmdir og vöru- og þjónustukaup þar sem því verður við komið skv. Innkaupastefnu Akureyrarkaupstaðar. Sérstök áhersla verður lögð á að ná ítrustu hagkvæmni  í innkaupum og meta skal endurnýjunarþörf búnaðar sérstaklega. Gerðir skulu þjónustusamningar við félög, fyrirtæki og stofnanir á þeim sviðum sem hagkvæmni slíkra samninga getur notið sín.

Áherslur við framkvæmd fjárhagsáætlunar

Bæjarstjórn ítrekar tilmæli til stjórnenda bæjarins um að gæta ítrasta aðhalds í öllum rekstri bæjarins á árinu 2011. Mikilvægt er að allri yfirvinnu sé haldið í lágmarki og þeim eindregnu tilmælum er beint til stjórnenda að meta vandlega yfirvinnuþörf og leita leiða til að draga úr henni. Jafnframt skulu stjórnendur meta sérstaklega þörf á nýráðningum og möguleika á hagræðingu með breyttu verkferli þegar störf losna.

Nýjast