Nýsköpun og nútíminn

Ingibjörg Benediktsdóttir
Ingibjörg Benediktsdóttir

Ingibjörg Benediktsdóttir skrifar

Hafnarstéttin - hjarta atvinnulífsins

Á Hafnarstéttinni á Húsavík er að eiga sér stað hljóðleg bylting. Þekkingarsamfélagið sem þar hefur starfað undanfarin ár er að taka stakkaskiptum um þessar mundir. Nýtt frumkvöðlasetur er orðið til, Hraðið-nýsköpunarmiðstöð, og ný FabLab-smiðja - FabLab Húsavík - með nýjum búnaði og aðstöðu, nýjum störfum, nýjum fyrirtækjum. Þá eru stofnanirnar sem fyrir voru að eflast og bæta við sína aðstöðu að öllu leyti, og enn fleiri að bætast í hópinn. 30 heilsársstörf, tugir árstíðabundinna starfa, 5 stofnanir og fjölgandi óstaðbundin störf fyrirtækja og stofnana. Allt þetta hefur orðið til á hálfum öðrum áratug og verið almennt fjármagnað með grunnframlögum úr ríkissjóði sem svo eru margfölduð með sjálfsaflafé af einkamarkaði og úr erlendum sjóðum.

Sveitarfélagið efli stuðning

Norðurþing þarf af styðja við uppbyggingarverkefni eins og starfsemina á Hafnarstétt með meira afgerandi hætti á komandi kjörtímabili. V-listi mun beita sér fyrir stefnumörkun í þessa veru, sem setur nýsköpun og þekkingarstarfsemi á oddinn í aðgerðum í þágu atvinnulífs í Norðurþingi. Það er nauðsynlegt að auka samstarf og beita sveitarfélaginu meira til eflingar einstakra eininga og stofnana. Ekki á þeim forsendum að verið sé að styðja utanaðkomandi góðgerðarstarf, heldur vegna augljósra og mikilla hagsmuna Norðurþings af því að starfsemin eflist og haldi áfram að draga til sín og skapa ný störf og fjármuni utan frá, til nýsköpunarvinnu af margvíslegu tagi í þágu atvinnulífs í sveitarfélaginu.

Fólk skapar störf, störf ekki fólk

Það hefur verið ríkjandi skilningur á liðnum áratugum að til að geta flutt á tiltekinn stað til búsetu, til dæmis til Húsavíkur eða Raufarhafnar, þá sé atvinnan/starfið forsendan. Helst klæðskerasniðið starf, auglýst í sunnudags-Mogganun á heppilegum tíma. Nútíminn hefur verið að snúa því svolítið við hvernig við hugsum um þetta. Það er nefnilega fólk sem skapar störfin, en ekki störfin sem skapa fólkið. Og það er gert með nýsköpun. Nýsköpun sem felst í að finna upp eitthvað nýtt og þróa það og koma á koppinn, eða draga til okkar eitthvað sem þekkt er annars staðar en verður nýsköpun fyrir okkur. Við þurfum að hjálpa okkur sjálfum við að hjálpa okkur sjálf. Koma okkur upp góðum suðupottum þar sem nýsköpun mallar á mátulegum hita samhliða atvinnulífinu okkar.

Ingibjörg Benediktsdóttir
Höfundur er í 2. sæti á V-lista í Norðurþingi

 


Athugasemdir

Nýjast