Norðurþing hættir samstarfi við Qair Iceland

Þann 24. mars 2021 gerði sveitarfélagið Norðurþing samkomulag við Qair Iceland ehf., (Qair) sem heimilaði Qair að hefja rannsóknir á vindafari á landsvæði NA við Húsvíkurfjall, en landsvæðið er í eigu Norðurþings. Samkvæmt samkomulaginu skyldi Qair heimilt (að undangenginni sérstakri umsókn þar um) að reisa á svæðinu mastur til vindafarsrannsókna og/eða að framkvæma þar sambærilegar vindafarsrannsóknir með svokölluðum „Lidar“ búnaði.

Tilgangur Qair með þessum rannsóknum var að kanna hvort svæðið henti til að reisa þar vindorkugarð til rafmagnsframleiðslu. Samkomulagið við Qair veitti félaginu ekki einkarétt að rannsóknum á vindafari á svæðinu né fólst í því forgangur til frekari nytja svæðisins til uppbyggingar vindorkugarðs.

Þegar samkomulagið var gert lýsti forráðafólk Qair því yfir, að strax á vordögum ársins 2021 myndu vindafarsrannsóknir hefjast á svæðinu með því að flutt yrði þangað mastur, sem notað hafði verið við vindafarsrannsóknir annar staðar, eða þá að „Lidar“ búnaður yrði staðsettur á rannsóknarsvæðinu. Ekki varð af því, þrátt fyrir fyrirspurnir fulltrúa Norðurþings. Snemma árs 2022 áttu aðilar með sér fund þar sem forsvarsfólk Qair lýstu því yfir að vindrannsóknir myndu verða gerðar á árinu 2022. Ekkert varð heldur af því.

Á fundi byggðaráðs Norðurþings í morgun var málið til umfjöllunar og  var ákveðið að hætta samstarfi við félagið.

„Þar sem engar vindafarsrannsóknir, með þeim hætti sem lýst var í samkomulaginu, hafa verið gerðar og þar af leiðandi engar rannsóknarniðurstöður kynntar Norðurþingi, telur byggðarráð Norðurþings ástæðulaust að halda áfram samstarfi við Qair Iceland ehf. um rannsóknir á svæðinu,“ segir í bókun ráðsins.

 


Athugasemdir

Nýjast