NORÐURSLÓÐANET ÍSLANDS OG POLAR KNOWLEDGE Í KANADA SKRIFA UNDIR VILJAYFIRLÝSINGU

Talið frá vinstri: Eyjólfur Guðmundsson, Rektor Háskólans á Akureyri og formaður stjórnar Norðurslóð…
Talið frá vinstri: Eyjólfur Guðmundsson, Rektor Háskólans á Akureyri og formaður stjórnar Norðurslóðanets Íslands; Stewart Wheeler, sendiherra Kanada á Íslandi; Embla Eir Oddsdóttir, forstöðumaður Norðurslóðanets Íslands og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Mynd: Auðunn Níelsson

Norðurslóðanet Íslands og Polar Knowledge í Kanada hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um að stuðla að greiðara samstarfi milli Íslands og Kanada á sviði vísinda og tækni. Undirritunin fór fram þann 11. júní 2016 kl. 13:00, að lokinni útskriftarathöfn við Háskólann á Akureyri. Viljayfirlýsingin var undirrituð af Stewart Wheeler, sendiherra Kanada, fyrir hönd Polar Knowledge í Kanada og Emblu Eir Oddsdóttur, forstöðumanns Norðurslóðanetsins á Íslandi. Meðal viðstaddra voru forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson og Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

„Kanada og Ísland eru grannar og samstarfsaðilar á norðurslóðum” sagði Stewart Wheeler, sendiherra Kanada. „Þessi nýju tengsl milli Polar Knowledge í Kanada og Norðurslóðanetsins á Íslandi munu skapa kraftmikið samstarf við haldgóð rannsóknarverkefni sem munu stuðla að auknum skilning okkar á málefnum norðurslóða.” 
Gestir við undirskriftina
Megin tilgangur samningsins er að „hvetja og samhæfa stýringu rannsókna á norðurslóðum… með mikilvægi þróunar innan vísinda og tækni fyrir efnahags- og samfélagsþróun Íslands og Kanada í huga…” Meðal þeirra þátta sem heyra undir samstarfið er: sameiginlegt aðgengi að innviðum og sérþekkingu; þátttaka menntastofnana, ríkisstofnana og einkageirans; og samnýting og þjálfun vísinda- og tæknifólks, sem og nemenda. 

„Þetta er fyrsta skrefið í að raungera samstarf sem hefur verið til umræðu um nokkurt skeið”, sagði Embla Eir. „Þetta samstarf skapar farveg til að útvíkka þekkingargrunn okkar samhliða því að stuðla að sérþekkingu innan verkefna á alþjóðlegum og þverfaglegum grunni þar sem að kemur fjöldi hagsmunaaðila. Við höfum þegar borið kennsl á sameiginleg hagsmunasvið sem verða skilgreind nánar í næsta skrefi.”

Norðurslóðanet Íslands hóf starfsemi sína árið 2013 með samkomulagi við Utanríkisráðuneytið. Megin tilgangur Norðurslóðanetsins er að auka sýnileika og skilning á málefnum norðurslóða og að skapa tengsl milli hagsmunaaðila sem starfa að málefnum norðurslóða á Íslandi og alþjóðlega, þar með talið stofnana, fyrirtækja og samfélaga. Stofnaðilar Norðurslóðanetsins eru: Háskólinn á Akureyri, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Heimskautaréttarstofnunin, Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri, Rannsóknaþing norðursins, Rannsóknamiðstöð Íslands, Rannsóknamiðstöð ferðamála, Arctic Portal og vinnuhópar Norðurskautsráðsins CAFF (Conservation of Arctic Flora and Fauna) og PAME (Protection of Arctic Marine Environment). Núverandi aðilar að Norðurslóðanetinu eru tuttugu og fimm talsins, þar á meðal eru Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Veðurstofa Íslands, Landhelgisgæslan, Hafrannsóknarstofnun, Jafnréttisstofa og Arctic Services. Skrifstofur Norðurslóðanetsins eru í Rannsóknarhúsinu að Borgum við Norðurslóð á Akureyri og forstöðumaður þess er Embla Eir Oddsdóttir. 

Polar Knowledge í Kanada (POLAR) er ríkisstofnun sem sett var á laggirnar þann 1. júní 2015 í þeim tilgangi að styrkja alþjóðlega stöðu Kanada sem frumkvöðuls á sviði vísinda og tækni á norðurslóðum. Polar stuðlar að öflun, dreifingu og nýtingu þekkingar innan ríkja á heimskautasvæðum, þar á meðal Antarcticu. Með byggingu CHARS rannsóknarmiðstöðvarinnar (e. Canadian High Arctic Research Station) við Cambridge flóa í Nunavut mun POLAR leggja til rannsóknarmiðstöð á heimsmælikvarða til vísinda- og tæknirannsókna. Að byggingu lokinni er CHARS rannsóknarmiðstöðinni einnig ætlað að hýsa höfuðstöðvar POLAR. Tilgangur POLAR er að stuðla að aukinni þekkingu á norðurslóðum Kanada í því miði að bæta efnahagslega möguleika, umönnun náttúruauðlinda og lífsgæði íbúa á norðurslóðum, sem og allra íbúa Kanada. Formaður og forstjóri POLAR er Dr. David J. Scott.

Nýjast