„Nemendurnir hafa svo sannarlega auðgað mitt líf“

Hópurinn sem Helga Björg kvaddi á dögunum. Helga Björg, lengst til hægri. Myndir/aðsendar.
Hópurinn sem Helga Björg kvaddi á dögunum. Helga Björg, lengst til hægri. Myndir/aðsendar.

Framhaldsskólinn á Húsavík hefur boðið upp á nám í heilsunuddi undan farin ár. Verklegi hluti námsins er tvö ár og er kenndur í staðarlotum á Húsavík. Fyrr í vikunni var stór hópur nemenda að ljúka sínu verklega námi en þetta var annar hópurinn sem lýkur verklega náminu hjá FSH.

„Við erum að fara af stað með þriðja hóp núna í haust. Það hefur verið bísna góð aðsókn í námið,“ segir Halldór Jón Gísalason, aðstoðar skólameistari og áfangastjóri og bætir við að búið sé að opna fyrir innritun fyrir námið sem hefst í haust.

„Það er mjög stór hópur sem er að klára núna en við tökum inn nemendur annað hvert haust. Við erum að fara af stað með vel samsettan hóp núna en aðeins minni en síðast,“ segir hann.

 Veðja á fjölbreytni

Heilsunuddbrautin er frábrugðnari öðru námi sem skólinn hefur áður boðið upp á og segir Halldór Jón að brautin gefi þeim tækifæri á því að sækja nemendur sem eru ekki búsettir hér á svæðinu og séu ekki í þessu hefðbundna bóknámi sem skólinn hefur verið með.

„Þetta hefur gefist mjög vel og er bæði líflegt og frábrugðið því sem við höfum verið að bjóða upp á. Við erum búin að útskrifa fjóra úr þeim hópi sem við erum með núna og erum að útskrifa 11 nú á næstu dögum. Verknámið sem slíkt er tvö ár og kennt í lotum hér yfir veturinn. Svo þarf líka að ljúka bóknámi sem fólk hefur verið að stýra aðeins sjálft,“ útskýrir Halldór Jón.

„Það sem er skemmtilegast við þetta er að þetta er öll flóran, bæði nemendur sem eru komnir langt í námi og eru að bæta við sig og aðrir sem eru að finna sig í námi. Fólk á öllum aldri sem er að gera þetta af ástríðu.“

 Kvaddi með tár á hvarmi

Helga Björg Sigurðardóttir, heilsunuddari hefur haldið utan um kennsluna og það var ekki laust við að hún væri grátklökk þegar blaðamaður ræddi við hana á dögunum. Þá var hún nýbúin að kveðja hópinn sem er að útskrifast nú í vor.

„Já þetta voru tímamót hjá þessum frábæra hópi nema sem kláraði verklegt nám á heilsunuddarabraut FSH. Ég man svo vel eftir fyrsta deginum með þeim, það var seint í ágúst 2021 og flestir í hópnum að hittast í fyrsta sinn,“ segir Helga Björg og bætir við að hún sé full þakklæti yfir því að hafa fengið að fylgjast með þeim á þessu ferðalagi og séð þau hreinlega blómstra.

„Kveðjustundin í vikunni var tilfinningaþrungin og falleg, mikill kærleikur og vinátta í hópnum og hafa þau sýnt hvort öðru mikið traust,“ segir hún með tárin í augunum og leggur einmitt áherslu á það að uppsetning námsins með þessum staðarlotum geri það að verkum að hópurinn tengist svo vel vinaböndum.

 Koma víða að

Nudd í geo

„Þau hafa komið til Húsavíkur aðra hvora helgi, sjö helgar í röð á þessum fjórum önnum sem verklegi kennsluhlutinn er, flest þeirra gista hérna þessar helgar enda sum að koma langa leið, frá Borgarfirði eystra, Höfn og Ólafsfirði en meirihlutinn kemur frá Akureyri. Þau hafa sett mikinn svip á litla bæinn okkar, verið mjög dugleg að nýta sér þá þjónustu sem hér er í boði og svo hafa þau boðið bæjarbúum reglulega á nuddbekkina og margir notið góðs af því, ekki bara fengið gott nudd heldur líka fengið kærleiksríka, umvefjandi nærveru þeirra,“ útskýrir Helga Björg og bætir við að það verði tómlegt á Húsavíkinni nú þegar hópurinn sé farinn „en ég veit að mörg þeirra hafa orðið mikla ást á bænum og koma aftur og aftur, það þarf að nýta árskortið í Sjóböðunum,“ segir hún.

Þakklát fyrir ævintýrið

„Nemendurnir hafa svo sannarlega auðgað mitt líf og ég er ríkari af góðu fólki og gleðistundum, svo hafa þau kennt mér mikið og ég fengið að kenna þeim. Ég er þakkát Framhaldsskólanum á Húsavík fyrir að gefa mér þetta tækifæri og skólinn hefur staðið sig vel í að byggja upp aðstöðu fyrir nemendur í staðarlotum.“

Námið samanstendur af bóklegum fögum sem flestir taka í fjarnámi, verklegri kennslu sem kennd er við FSH um helgar í lotum og svo tímasöfnun hvers og eins nemanda sem gerir það að verkum að þau útskrifast á mismunandi tímum þegar öllu er lokið.

Þá er bryddað upp á ýmsu uppbroti en Huld Hafliðadóttir frá SpiritNorth hefur meðal annars kennt yoga. Þá hafa nemendur verið duglegir að sækja Sjóböðin á Húsavík.

 Komu sér í gegn um allar hindranir

Yoga

„Heilsunuddarabrautin byrjaði 2019 og fyrsti árgangurinn fór í gegnum  Covid með tilheyrandi stoppum þess vegna. Það urðu afföll á leiðinni og þegar þau luku sínu verklega námi haustið 2021 þá voru 12 konur eftir í hópnum. Nú hafa fjórar konur útskrifast úr þeim hóp og þrjár stefna á útskrift í vor,“ segir Helga Björg en annar árgangur fór af stað haustið 2021.

„Þau byrjuðu 20 sem er eiginlega of margir nemar í svona verklegu námi. Á annarri önninni voru þau orðin 19 og tvö af þeim hafa sleppt áföngum af persónulegum ástæðum og hafa því ekki klárað verklega hlutann ennþá en geta gert það með næsta árgangi sem stendur til að fari af stað í haust. Af þessum nemum sem kláruðu verklega hlutann í vikunni ætla átta að útskrifast þann 20. maí nk. og samtals munu því útskrifast 11 heilsunuddarar frá FSH í vor,“ segir Helga Björg.

Kennarar við heilsunuddarabrautina í FSH hafa verið auk Helgu Bjargar; Ingibjörg Magnúsdóttir, Júlía Matthildur Brynjólfsdóttir, Elvar Smári Sævarsson, Ágúst Bergur Kárason, Áróra Helgadóttir og Ragnheiður Hafstein auk þess sem Björg Björnsdóttir hefur séð um líkamsbeitingu. Þau koma flest frá Akureyri en Áróra og Ragnheiður að sunnan.

 Vinatengsl fyrir lífstíð

„Í báðum þessum árgöngum hafa myndast sterk og góð tengsl á milli nemenda, kærleikur og traust sem skilar sér í sterkum vinaböndum enda eru þau búin að vera saman í mjög krefjandi námi, deila gleði og sorgum, hlæja mikið og gráta helling. Þegar þau eiga frí frá skólanum þá halda þau hópinn, borða saman, fara í sjóböðin, horfa á norðurljósin og spjalla mikið í trausti. Svo er gleðin alltaf með líka, það þarf að muna að hafa gaman,“ segir Helga Björg grátklökk og bætir við að nemendunum finnist þau finna fyrir miklum velvilja í bænum.

„Þau fá góðan díl hjá hótelinu og þar á bæ vilja allir allt fyrir þau gera enda er orðið mjög heimilislegt að hafa þau. Þau fá líka góðan díl í Sjóböðunum og á fleiri stöðum í bænum,“ segir hún og nefnir einnig að mágkonurnar á kaffihúsinu Hérna hafi þjónustað hópinn upp í skóla þega þannig hafi legið við. „Eins hefur Birkir í Lemon margoft komið upp í skóla með heimsendingu til okkar, jafnvel þó Lemon hafi verið lokað."

Nemendur hafa boðið bæjarbúum á bekkinn í sinni verklegu starfsþjálfun sem Helga heldur utan um og því óhætt að segja að samfélagið njóti góðs af heilsunuddbrautinni. „Það alltaf verið mjög vel lukkað og fá þau alltaf mikið hrós. Við höfum boðið mismunandi hópum á bekkinn, íþróttafólki, hjúkrunarfræðingum, leikskólakennurum, kennurum, löggunni og björgunarsveitinni og svo núna síðast buðum við heldri borgurum og var það mjög skemmtilegt,“ segir Helga Björg.

Mikið lagt í námsbrautina

FSH hefur verið í miklum endurbótum síðan heilsunuddarabrautin hófst 2019 og segist Helga Björg vera í skýjunum yfir utanumhaldi skólans. „Valgerður [Gunnarsdóttir, skólameistari] hefur gert mjög vel, hún hefur komið til móts við þarfir brautarinnar og í dag er aðstaðan hin glæsilegasta á allan hátt. Það er komið fullkomið eldhús og nemarnir geta eldað saman, borðað saman, „chillað“ saman og lært saman. Mjög notalegur salur fyrir yoga og aðra samveru. Auk þess eru svo bekkir settir upp fyrir nuddi,“ útskýrir Helga Björg og bætir við að skólinn verði annað heimilið nemenda meðan þau dvelja á Húsavík.

„Mér fannst gaman um daginn þegar ég spurði þau hvar ætti svo að borða kvöldmatinn og þau ætluðu flest bara að borða heima, en það var á Fosshóteli þar sem flest þeirra dvelja yfir kennsluhelgarnar,“ segir Hún.

Með fjölskylduna með sér

Þá má geta þess að Helga Björg hefur dregið fjölskyldu sína með í ævintýrið. „Foreldrar mínir tóku að sér nemandann frá Borgarfirði Eystra enda er pabbi þaðan og kom ekki annað til greina en að hýsa hana þegar hún lenti í húsnæðisvanda hérna. Nú er hún Elísabet eiginlega orðin fóstursystir mín eða stjúpsystir, veit ekki hvort orðið maður notar og ég er svo þakklát fyrir hana. Það gaf mömmu og pabba mikið að fá hana aðra hverja helgi í vetur og var alltaf gaman hjá þeim, frá fyrsta degi var hún eins og heima hjá sér og hún á alltaf samastað hjá þeim í framtíðinni og þau hjá henni á Borgarfirði Eystra,“ segir Helga Björg að lokum.

Fyrri hópuinn


Athugasemdir

Nýjast