Nemendur gleymast oft í umræðunni

Hjámar Bogi Hafliðason
Hjámar Bogi Hafliðason

Í tilkynningu á vef Hagstofunnar kemur fram að kennurum án kennsluréttinda fer fjölgandi í grunnskólum landsins, körlum fari fækkandi innan stéttarinnar og að nemendum fjölgi sem hafa erlent tungumál að móðurmáli. Dagskráin.is rýndi í þessi mál og ræddi m.a. við Hjálmar Boga Hafliðason grunnskólakennara og varaþingmann Framsóknarflokks.

Ólafur Loftsson formaður Félags grunnskólakennara segir í samtali við fréttasofu RÚV að grunnskólarnir séu ekki samkeppnishæfir um kennara. Hlutfall kennara án réttinda fer sífellt hækkandi. Hann segir kennara berjast fyrir bættu skólastarfi en sveitarfélögin hafi almennt lítinn áhuga á að heyra þeirra sjónarmið.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar var áratuginn fyrir hrun hlutfall grunnskólakennara, án kennsluréttinda, 13-20%, en eftir hrun lækkaði það og var 4,1% árið 2012. Eftir það hefur hlutfallið hækkað aftur og síðastliðið haust var það 5,4%. Ástandið er best í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu, en verst hvað þetta varðar á Vestfjörðum, þar sem réttindalausir kennarar voru tæp 17% og á Suðurnesjum 14,5%. 

„Ég sé ekki annað en að helsta skýringin sé að starfið sem slíkt sé ekki samkeppnisfært á markaði, kennarar leita í önnur störf og það er lítið um að við fáum nýja kennara til starfa,“ segir Ólafur í samtali við RÚV.
Hann segir að launin vegi þar þyngst.
„Já, já það eru auðvitað launin og starfsaðstæður almennt, en launin auðvitað eitt, tvö og þrjú þótt þau hafi lagast aðeins á undanförnum árum þá verður að gera miklu betur til þess að við séum samkeppnishæf við önnur störf. Það er ekkert flóknara en það.“

Hjálmar Bogi ekki að öllu leyti sammála

Dagskráin.is hafði samband við Hjálmar Boga Hafliðason grunnskólakennara og varaþingmann Framsóknarflokks og ræddi við hann um þessi mál en hann hefur einnig víðtæka reynslu af sveitastjórnarmálum.

Hjálmar Bogi segist að einhverju leyti geta tekið undir sjónarmið Ólafs en er ósammála því að launamál vegi þyngst þegar kemur að því að manna stéttina.

Hann tekur undir það að sveitarfélögin geti gert betur í því að hlusta á sjónarmið kennara en málið sé alls ekki einfalt. „Ég er almennt þeirrar skoðunar að þegar sveitarfélögin tóku við rekstri skólanna árið 1996 í fjársvelti hjá ríkinu, þá voru þeir almennt illa reknir, illa útbúnir og starfsaðstæður ekki góðar. Svo gerist það að við erum á fleygiferð inn í tæknivædda veröld, með allskyns greiningum og þjónustu sem fólk á rétt á. Þetta var ekki til áður, og þá þurfa náttúrlega sveitarfélögin að dæla peningum inn í þetta úr sínum rekstri,“ segir Hjálmar Bogi.

Nemendur gleymast í umræðunni

Hann vill sjá að ríkið komi að borðinu í auknum mæli til að gera kennarastarfið meira aðlaðandi. „Ekki síst nemendum til heilla. Þjónustuþeginn sem er nemandinn í þessu tilfelli finnst mér oft gleymast í þessari umræðu.“

Hjálmar Bogi segist vera þeirrar skoðunar að þó sveitarfélögin geti upp að vissu marki tekið meira tillit til sjónarmiða kennara þá sé víða pottur brotinn innan kennarastéttarinnar. „Ég hef nú hingað til ekki verið allt of ánægður með mitt stéttarfélag. Stéttarvitund okkar virðist mjög mikið byggjast á því hvað við kennarar eigum að hafa það gott en ekki hvað nemandinn fær út úr þessu. Við reynum alltaf að snúa umræðunni okkur í hag og þá fer þetta að vinna á móti okkur,” segir hann og bætir við og setur þunga í orð sín: „Afhverju í veröldinni erum við sú starfsstétt sem þarf að skilgreina  alla hluti í kjarasamningum,- hversu hátt hlutfall fer í kennslu, hversu hátt hlutfall í fundi o.s.frv. Afhverju gerum við þetta? Við eigum að fara út úr þessu," segir hann og tekur hjúkrunarfræðinga sem dæmi: „Þeir skilgreina ekki í sínum kjarasamningum, hversu hátt hlutfall starfsins fer í hjúkrun, hversu mikið þarf  að fara á fundi, hversu mikið á að svara í síma o.s.frv.“

Hjálmar Bogi telur einnig að hluti vandans felist í viðhorfum sem fullorðið fólk hefur til grunnskólanna og starfsins sem þar fer fram. „Skóli er eitthvað sem við þekkjum öll, allir hafa einhverntíma verið hluti af þessu kerfi og hver hefur sína ímynd af skóla og skólastarfi, og fólk miðar yfirleitt við sína eigin skólagöngu. Þar liggja mistökin, þegar fullorðið fólk heldur að skólinn sé eins í dag og hann var fyrir tuttugu árum síðan. Það er alls ekki þannig.“

Körlum fækkar í stéttinni

Á vef Hagstofunnar kemur meðal annars fram að körlum fer fækkandi í kennarastéttinni. Miðað við þróunina frá árinu 1998 mun að óbreyttu aðeins einn af hverjum tíu kennurum vera karlmaður eftir um það bil fimmtán ár. Hjálmar Bogi spyr sig hvort það sé sú ímynd sem við viljum skapa fyrir kennarastéttina.

Hann segist hafa mjög gaman af því að vera kennari sem karlmaður en hann hefur sínar eigin skýringar á því hvers vegna karlar sækist síður eftir því að verða kennarar, en það hljóti að vera blanda margra þátta. „Ein af ástæðunum held ég að felist í því að kennarastéttin almennt er frekar kvennlæg – í grunnin er þetta kvennmiðað umhverfi sem starfið býður upp á.  Við þurfum að breyta kerfinu til að fá inn fleiri karla því þeir hugsa og vinna öðruvísi, það þarf að finna  jafnvægi í þessu,“ segir hann.

Innflytjendum fjölgar

Hjá Hagstofunni kemur einnig fram að nemendum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli fjölgi ört. Það styttist í að á Íslandi verði fjöldi nemenda með annað tungumál en íslensku að móðurmáli nemi alls sem samsvari einum heilum grunnskólaárgangi. „Ég held að við séum ekki alveg tilbúin undir það,“ segir Hjálmar Bogi og bætir við að lokum: „Lykillinn að því að búa til betra samfélag er einmitt í gegnum börnin og skólana.“

-epe

 

Nýjast