Neikvæð og ósanngjörn umræða um bændur og lambakjöt
Hin eiginlega sláturtíð byrjar á Húsavík fimmtudaginn 7. september næstkomandi "og þá verðum við komin með full mannað hús," segir Sigmundur, en áætlað að slátra á bilinu 76- 78.000 fjár á Húsavík. Í heildina áætlar Norðlenska að slátra um 108-110.000 fjár. Sigmundur segir að hvað fallþunga í haust varðar megi gera ráð fyrir að hann lækki eitthvað í ljósi þess tíðarfars sem var hér framan af sumri. "En þrátt fyrir það þá hefur það kjöt sem við höfum fengið hingað til verið í góðu lagi og meðalvigt þess verið um 14,5 kg. Það hefur verið fitulítið en holdfylling almennt góð, svo þetta hefur verið mjög söluvænlegt."
Ferskt kjöt frá Norðlenska var komið í búðir nú á þriðjudag,en Nóatún varð þess heiðurs aðnjótandi að fá fyrsta ferska kjötið frá fyrirtækinu þetta haustið. Sigmundur kveðst vonast til þess að það dragi úr þeirri neikvæðu og ósanngjörnu umræðu sem verið hefur um stöðu lambakjötsins og bændur í landinu. "Menn hafa vaðið fram í fjölmiðlum með upphrópanir um skort á lambakjöti og heimtað innflutning, svo ekki sé nú talað um þegar því er slegið upp að allir bestu bitarnir séu fluttir úr landi," segir hann og telur að málflutningur af því tagi lýsi vanþekkingu þeirra sem þannig tala. Nefnir Sigmundur sem dæmi að í liðinni viku hafi Norðlenska flutt út um 70 tonn af t.d lambafitu, beinum, og mör sem og úrbeinuðum slögum. Alls hafi fyrirtækið flutt út af þessum afurðum á þriðja hundrað tonn, þ.e. aukaafurðum sem sumir telji greinilega til "bestu" bitanna.
Hvað útflutning varðar hefur Norðlenska flutt sáralítið út af t.d lærum og hryggjum, en fyrirtækið reyni að sinna Færeyingum eins og kostur er og stefna og metnaður þess sé skýr; innanlandsmarkaðurinn situr fyrir og þannig ætti það að sjálfsögðu að vera hjá öllum. Það sé enda með öllu óviðunandi ef ekki er til lambakjöt í verslunum fyrir landann, veitingastaði og ferðaþjónustuna. "Með því móti skiljum við eftir vinnuna og virðisaukann hér heima, en skrokkar í plasti og grisju sem settir eru beint í gáma og sendir úr landi skila ekki miklum virðisauka," segir Sigmundur.