Námsbraut í bifvélavirkjun fær góða gjöf

Námsbraut í bifvélavirkjun við VMA fékk góða gjöf á dögunum, tvo verkfæraskápa fulla af verkfærum í …
Námsbraut í bifvélavirkjun við VMA fékk góða gjöf á dögunum, tvo verkfæraskápa fulla af verkfærum í öllum regnbogans litum. Mynd á vefsíðu VMA

Fulltrúar fyrirtækjanna, Johan Rönning /Sindra á Akureyri og Kraftbíla í Hörgársveit komu færandi hendi í Verkmenntaskólann á Akureyri og afhentu námsbraut í bifvélavirkjun að gjöf verkfæri í öllum regnbogans litum fyrir Hönd fyrirtækjanna. Um var að ræða tvo verkfæraskápa fulla af verkfærum auk annars að því er fram kemur á vefsíðu VMA.

Ásgeir V. Bragason, kennari í bifvélavirkjun, segir að skólann hafi skort mjög verkfæri til þess að geta kennt verklega kennslu þrettán nemenda, sem nú stunda nám í bifvélavirkjun, og því sé þessi gjöf eins og himnasending. Hann segist nánast vera orðlaus yfir þessum rausnarskap því þegar hann leitaði eftir stuðningi þessara fyrirtækja við námsbrautina hafi hann mögulega getað búist við að þau gætu séð sér fært að styðja hana um tíu prósent af því sem síðan hafi verið raunin.

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari færði fyrirtækjunum einnig þakkir fyrir höfðinglega gjöf sem hún sagði vera gott dæmi um afar mikilvægt samstarf atvinnulífs og skóla. Það væri ómetanlegt fyrir VMA að eiga slíka bakhjarla sem sýni skólanum velvild og stuðning. Hún bætti við að þetta væri fyrsta afmælisgjöfin sem skólinn fengi á 40 ára afmælinu og hún væri sannarlega ekki af verri endanum.


Athugasemdir

Nýjast