„Mottumars“ hefst á nýjan leik

Mottumars" er yfirskrift mánaðarlangs átaks Krabbameinsfélags Íslands um karlmenn og krabbamein, sem hófst formlega í dag þegar úrvalslið lögreglumanna og slökkviliðsmanna öttu kappi í íshokkí og skoruðu hvort á annað í liðakeppni í mottukeppninni. Átakið er tvíþætt, árvekniátak og fjáröflunarátak. Það sem safnast verður notað til að efla forvarnir og fræðslu, rannsóknir og ráðgjöf.  

Þetta er í fjórða sinn sem Krabbameinsfélagið stendur fyrir sérstöku átaki um karlmenn og krabbamein en í annað sinn sem karlmenn eru hvattir til að safna yfirvararskeggi. „Átakið í fyrra heppnaðist einstaklega vel og sá fjöldi karlmanna sem tók virkan þátt í skeggsöfnuninni var ótrúlegur," segir Ragnheiður Haraldsdóttir forstjóri Krabbameinsfélags Íslands. „Við vonum að sem flestir karlmenn safni yfirvararskeggi og hvetjum alla til að tileinka sér upplýsingar um hvað hægt er að gera til að koma í veg fyrir sjúkdóminn eða greina hann snemma." Að sögn Ragnheiðar hefur fé það sem safnað var í fyrra nýst vel, ekki síst til að auka þekkingu á sjúkdómnum og auka stuðning við sjúklinga.

Áskorun - flottasta motta marsmánaðar!

Karlmenn eru hvattir til að safna yfirvararskeggi í marsmánuði og að skrá sig til þátttöku í mottukeppninni á vefsíðunni http://www.karlmennogkrabbamein.is/. Þar er einnig safnað áheitum til styrktar Krabbameinsfélaginu. Hægt er að taka þátt bæði sem einstaklingar og lið, til dæmis á vinnustöðum. Þá er mögulegt að skrá sig eftir búsetu og keppa þannig fyrir hönd síns byggðarlags. Þeir sem safna mestum áheitum, bæði í einstaklings- og liðakeppninni, fá viðurkenningu sem nefnist Mottan 2011. Þá mun félag rakarameistara velja fegurstu mottuna.

Verri horfur hjá körlum

Meira en 700 karlar greinast ár hvert með krabbamein hér á landi. Nú geta 61% karla sem greinast vænst þess að lifa í fimm ár eða lengur en hlutfallið hjá konum er 66% svo að karlarnir þurfa að taka sig á. Krabbameinsfélagið leggur áherslu á að karlar geri sér grein fyrir helstu einkennum krabbameina og leiti læknis verði þeir varir við þau. Þá skipta forvarnir einnig gríðarlegu máli í baráttunni við krabbamein en rannsóknir benda til að hægt sé að koma í veg fyrir eitt af hverjum þremur tilfellum með heilbrigðum lífsháttum almennt svo sem með því að reykja ekki, hreyfa sig reglulega og borða hollan mat. Batahorfur hafa batnað mjög á síðustu áratugum en brýnt er að greina meinin snemma.

Í marsmánuði stendur Krabbameinsfélagið meðal annars fyrir sérstökum örráðstefnum sem fjalla um karlmenn og krabbamein. Dagana 12.-26. mars munu verslanir í Kringlunni selja sérstök barmmerki, svonefndar skeggnælur. Aðildarfélög Krabbameinsfélagsins víða um land selja merkin einnig.

Nýjast