Kórarnir sem syngja á tónleikinum eru Hymnodia og Kammerkórinn Ísold undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar og sameinaðir sóknarkórar Péturs, sem Petra Björk Pálsdóttir stjórnar. Álftagerðisbræður syngja eins og þeim einum er lagið og sömuleiðis kvenna-alt tríóið Alt saman. Einsöngvarar verða Hjalti Jónsson, Óskar Pétursson, Örn Viðar Birgisson og Sveinn Dúa Hjörleifsson. Lára Sóley Jóhannsdóttir leikur einleik á fiðlu. Meðal verka á tónleikunum er nýtt lag sem verður frumflutt af kór, hljómsveit og tveimur tenórum.
Milli laga verður brugðið upp myndbrotum úr lífi Péturs, m.a. myndum frá eftirminnilegum tónleikum, sem haldnir voru í Glerárkirkju til styrktar Pétri fyrir hálfum öðrum áratug. Það verður því „tekið á því" og jafnframt sungið inn að innstu hjartarótum á minningartónleikum Péturs. Tónleikarnir eru haldnir í tilefni þess að Pétur hefði orðið sextugur á árinu, en hann lést 1. mars 2007 eftir langvinn veikindi.
Auk tónleikanna verður gefin út bók í minningu Péturs sem kemur út síðar á árinu. Í bókinni verða minningar samferðamanna um Pétur auk valdra kafla úr ræðum hans, predikunum og greinaskrifum. Bókinni mun fylgja DVD diskur með heimildamynd um Pétur eftir Gísla Sigurgeirsson, kvikmyndagerðarmann.
Hagnaður af tónleikum og bókaútgáfunni rennur í minningarsjóð um sr. Pétur, en í stjórn hans verða fulltrúar úr sóknum Péturs ásamt þjónandi presti í Laufási hverju sinni, en þar þjónar nú sr. Bolli Pétur Bollason. Hlutverk sjóðsins verður að hlaupa undir bagga með einstaklingum og fjölskyldum sem lenda í erfiðleikum vegna veikinda af svipuðum toga og séra Pétur stríddi við. Sjóðurinn verður nánar kynntur á tónleikunum.
Þeir sem vilja gerast áskrifendur að bókinni geta skrifað sig á lista sem liggja mun frammi á tónleikunum og einnig er hægt að skrá sig með bókun á nordri@nordri.is. Nöfn þeirra verða jafnframt sett á sérstakan minningalista, Tabula memorialis, sem birtur verður í bókinni.
Örfáir miðar eru óseldir á tónleika, en miðasala er í Hofi og á vefnum http://www.menningarhus.is/