Minningarhátíð um Björgvin Guðmundsson tónskáld

Ingvar Gíslason skrifar

Einn þeirra manna, sem settu sterkan svip á bæjarlíf Akureyrar á öldinni sem leið, var Björgvin Guðmundsson tónskáld og söngstjóri. Í þrjátíu ár, 1931-1961, var hann búsettur á Akureyri, leiðandi maður í menningarlífinu, einkum á sviði tónlistar og leiklistar. Hann var sannur listamaður að náttúrugáfum og saga hans um margt einstæð.

Björgvin var þar á ofan minnisstæður persónuleiki, stór í sniðum, vörpulegur maður, býsna örgeðja svo að hann átti það til að þjóta upp og ofan skapsmunaskalann, þegar svo stóð á. Í list sinni sem skapandi skáld í tónum var hann boðberi friðar og fagurs mannlífs. Sönglög Björgvins eru áhrifamikil, oft tregablandin, eins konar íslenskur "blues".

Um þessar mundir eru 50 ár liðin frá andláti Björgvins Guðmundssonar. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 5. janúar 1961, á 70. aldursári. Hann hvílir í Akureyrarkirkjugarði og við hlið hans eiginkona hans Hólmfríður Guðmundsson (Fríða Freeman) vestur-íslensk kona af þingeyskum ættum, svo og einkadóttir þeirra Margrét Björgvinsdóttir. - Þess er líka að minnast að 80 ár eru síðan Björgvin og fjölskylda hans settist að á Akureyri, eftir að hafa búið lengi í Kanada. Þangað fluttist Björgvin tvítugur að aldri. Og ekki er það síður minnisvert að 120 ár eru liðin frá fæðingu Björgvins, hann fæddist að Rjúpnafelli í Vopnafirði 26. apríl 1891.

Þessi upptalning ártala sýnir að Akureyringar hafa ástæðu til að gera árið 2011 að sérstöku minningarári um Björgvin. Skal í því sambandi leggja áherslu á að Akureyringar hafa ætíð sýnt lífi, starfi og minningu hans sóma með því að efna til afmælistónleika á merkisafmælum hans. Út af því verður ekki brugðið að þessu sinni.

Í undirbúningi er vegleg Björgvinshátíð, sem haldin verður í Menningarhúsinu Hofi 10. apríl nk. Tónlistarstjóri er Roar Kvam. María Sigurðardóttir leikstjóri sér um flutning þáttar úr Skrúðsbóndanum, vinsælu leikriti Björgvins frá 1940. Að framkvæmd hátíðarinnar vinnur starfshópur, sem skipaður er Haraldi Sigurðssyni fv. bankafulltrúa, Sverri Pálssyni fv. skólastjóra, Þorsteini Gunnarssyni fv. háskólarektor og undirrituðum.

Barnabörn Björgvins, Björgvin Richard Andersen, Fríða B. Andersen og Karl Konráð Andersen, hafa lagt undirbúningi Björgvinshátíðar mikið lið. Þá er þess að geta að Haukur Ágústsson rithöfundur og fyrrverandi sóknarprestur á Hofi í Vopnafirði hefur ritað ævisögu Björgvins. Hún bíður þess að verða gefin út. Sýningar eru ráðgerðar á Akureyri, Egilsstöðum og Vopnafirði á munum, myndum og handritum, úr fórum Björgvins. Standa vonir til að kvikmynd eftir Vigfús Sigurgeirsson frá Norðurlandaför Kantötukórsins 1951 geti orðið til sýningar.

Það er einlæg von okkar fyrirsvarsmanna Björgvinshátíðar að hún verði vel sótt, enda merkur menningarviðburður. Við höfum tekið að okkur fjárfrekt verkefni og væntum stuðnings í því sambandi frá ýmsum atvinnufyrirtækjum og menningarsjóðum, sem til verður leitað.

                                                                                                                                        Höfundur er fv. alþm. og ráðherra.

Nýjast