17. ágúst, 2007 - 13:09
Fréttir
Oddur Helgason hjá ORG - ættfræðiþjónustunni ehf. í Reykjavík var á ferð á sínum gömlu heimaslóðum á Akureyri og í næsta nágrenni nýlega, m.a. í leit að efni sem tengist vinnu hans við ættrakningar. Fyrirtæki hans sérhæfir sig í ættrakningum og söfnun allra þeirra ættfræðigagna sem Íslendinga varðar og þar með eru talin gögn um Vestur-Íslendinga. Oddur kom við á ritstjórn Vikudags og var hinn ánægðasti með afrakstur ferðar sinnar norður yfir heiðar. Hann hafði fengið í hendur 15 möppur með ættfræðigögnum frá Herði Jóhannssyni á Amtsbókasafninu og bækur með gögnum um fólk úr Fljótum, frá Sigurjóni Sæmundssyni á Siglufirði. Þau gögn fara svo á Héraðsskjalasafnið á Sauðárkróki eftir að Oddur hefur rýnt í þau. Hann sagði það gríðarlega mikilvægt að fólk varðveitti ættfræðigögn og að ekki megi fyrir nokkurn mun henda slíkum gögnum. "Ég hef bjargað miklu af upplýsingum um ættfræði og hvet fólk til að leyfa mér að skoða gögn ef það hefur slík undir höndum. Ég er ráðgjafi þjóðarinnar í ættfræðimálum og í gagnagrunni ORG - ættfræðiþjónustunnar eru skráðir um 670 þúsund einstaklingar og um 400-500 þúsund á eftir að skrá."
Oddur sagðist vera að reka stærsta fyrirtæki landsins, þar sem enginn væri rekinn, engir starfslokasamningar og enginn á launum, ekki einu sinni forstjórinn. Oddur sagðist jafnframt ætla að afsanna þá kenningu að enginn væri spámaður í sínu föðurlandi. "Það hefur heldur ekkert bæjarfélag hér á landi alið af sér fullmenntaðan speking nema Akureyri," sagði Oddur spekingur. Hann sagðist jafnframt vonast til Akureyringar og þá ekki síst bankastjórar, útgerðarmenn og forstjórar, fari að styðja betur við bakið á starfsemi sinni. ORG-ættfræðiþjónustan býður einstaklingum upp á ættrakningar gegn vægu gjaldi. Hægt að nálgast frekari upplýsingar um starfsemina á www.simnet.is/org.