Mikilvægt að koma málinu í betri farveg

„Það hlýtur öllum að vera það ljóst að svona getur þetta ekki gengið lengur og mikilvægt að koma þessum málum í betri farveg,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson oddviti sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og varaformaður fjárlaganefndar um líkhúsmálið sem verið hefur til umræðu undanfarið. Kirkjugarðar Akureyrar hafa lýst yfir miklum rekstrarvanda og að þegar sé búið að skera niður allt sem hægt er. Fátt annað sé eftir en að loka starfsemi líkhússins.

 Njáll Trausti segist hafa átt ágæt samtöl við dómsmálaráðherra í tengslum við rekstrarvanda líkhúsanna. Ráðherrann ætli að skipa starfshóp sem falið verður að takast á við verkefnið og skýra hvernig réttast sé að takast á við málið.

Njáll Trausti Friðbertsson

Ekki ný staða

„Þetta er ekki ný staða. Það hefur lengi verið vitað um þennan vanda, jafnvel hafa menn nefnt áratugi í því sambandi. Það er hart í ári í rekstri kirkjugarðanna og þeir hafa lengi búið við þá stöðu. Kirkjugarðsgjöldin hafa illa dugað fyrir rekstri garðanna og hvað þá rekstri líkhúsa,“ segir Njáll Trausti.

Hann segir það rétt hjá Smára Sigurðssyni framkvæmdastjóra Kirkjugarða Akureyrar að kirkjugörðunum beri engin skylda til að reka líkhús. Það sé ekki lögbundið hlutverk kirkjugarðanna að reka líkhús og ekki mega kirkjugarðarnir taka þjónustugjöld af þessari starfsemi líkt og fram hefur komið.

„Ég ber miklar vonir til þess að árangur náist í vinnu starfshópsins. Það hlýtur öllum að vera það ljóst að svona getur þetta ekki gengið lengur og mikilvægt að koma þessum málum í betri farveg“.


Athugasemdir

Nýjast