Þar á meðal voru Karlakór Akureyrar-Geysir, Lionsklúbbur Akureyrar og Lionsklúbburinn Hængur, Kiwanisklúbburinn Súlur í Ólafsfirði, Karlakór Dalvíkur, Kiwanisklúbburinn í Grímsey, Lionsklúbburinn í Hrísey og Karlfélagið Hallsteinn á Grenivík. Þeir sem tóku þátt í sölunni höfðu margir á orði hversu vel almenningur brást við. En í því sambandi má ekki gleyma að gildi átaksins felst ekki aðeins í þeim fjármunum sem safnast og sem varið er bæði til forvarnastarfs og rannsókna heldur ekki síst í að vekja karla til vitundar um mikilvægi þess að huga að heilsunni, segir í fréttatilkynningu.
"Það er svo sannarlega mikil hvatning fyrir okkur sem störfum fyrir Krabbameinsfélagið að finna með svo áþreifanlegum hætti hversu mjög almenningur metur starfsemina. Það er reyndar þannig að mjög margir vilja styðja við starfsemina í smáu sem stóru en þegar kemur að söfnunarátaki eins og því sem fram fór á laugardaginn þá er það nú einfaldlega þannig að okkar félagsmenn hafa margir ekki það líkamlega þrek sem þarf til að standa við í langan tíma og selja," segir Þorbjörg Ingvadóttir framkvæmdstjóri Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.
Gaf andvirði afmælisgjafanna
Fjölmargir einstaklingar ákveða á ári hverju að styðja við starfsemi Krabbameinsfélagsins með afar myndarlegum hætti. Dæmi um þetta er Ingvi Rafn Jóhannsson rafvirkjameistari á Akureyri sem nýlega fagnaði áttræðisafmæli sínu og ákvað að hvetja afmælisgesti til að styðja Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis í stað þess að færa sér gjafir. Hann bætti svo um betur sjálfur og ákvað að færa félaginu þúsund krónur að gjöf fyrir hvert ár sem hann hefur lifað í tilefni af átaksverkefninu Karlar og krabbamein. "Ég þekki af eigin raun þann þátt í starfsemi Krabbameinsfélagsins sem snýr að stuðningi við einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og hvernig það er einmitt hið smáa sem getur skipt sköpum," sagði Ingvi Rafn.