„Við erum mjög ánægð, bæði höfum við okkar föstu viðskiptavini sem koma ár eftir ár en eins tókum við eftir því núna að mikið var um utanbæjarfólk og það er ánægjulegt," segir hann. Nokkuð var um hópa utan af landi, bæði að austan og vestan. Margir voru einnig í gistingu á hótelinu, „fólk var hér í aðventuferð og notaði tímann til að gera vel við sig. Það hefur komið vel út fyrir okkur."
Mikið um að vera í allt haust
Heba Finnsdóttir framkvæmdastjóri Striksins segir að hún hafi orðið vör við að fyrirtæki hafi breytt út af venjunni og boðið sínu starfsfólki á tónleika á aðventunni fremur en á jólahlaðborð. „Það hefur að mér sýnist dregið nokkuð úr því að stóru fyrirtækin í bænum bjóði sínu starfsfólki á jólahlaðborð." Hún nefnir einnig að mörg fyrirtæki sem áður hafi boðið starfsfólki sínu í jólahlaðborð hafi ýmist lognast út af í kreppunni eða þá að starfsfólki þeirra hafi fækkað.
Heba segir að á Strikinu hafi verið bryddað upp á þeirri nýbreytni að bjóða upp á jólamatseðil í stað jólahlaðborðs og hafi það mælst vel fyrir. „Við fengum marga gesti til okkar sem voru t.d. á leið á tónleika og fékk sér að borða áður, margir vilja nú hafa þann háttinn á að velja sér einn rétt af matseðli fremur en að fara á jólahlaðborð. Það hefur ekki orðið fækkun gesta hjá okkur í desember miðað við í fyrra en fólk vill breyta til og velja af matseðli," segir hún.
Desember var góður á veitingastaðnum og fjöldi gesta svipaður og var í fyrra. Heba segir að raunar hafi mikið verið að gera í allt haust og greinilegt að margir leggi leið sína til Akureyrar til að sækja menningarviðburði af ýmsu tagi. Veitingastaðir njóti góðs af því.